150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um breytingu á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar og einföldun regluverks. Ég verð að segja að mér er það gjörsamlega óskiljanlegt að ákveða eigi að falla frá leyfisskyldu vegna sölu á notuðum ökutækjum. Ég veit ekki hvernig mönnum dettur þetta í hug. Það er mér óskiljanlegt að menn segi að það sé allt í lagi vegna þess að því sé betur varið annars staðar. Ég spyr hv. framsögumann þessara lagabreytinga hvernig hann getur fullyrt þetta miðað við umsögn FÍB þar sem vel og greinilega er bent á að þetta getur haft þvílík áhrif. Þetta getur haft áhrif, eins og hefur komið fram, úti í Evrópu þar sem er eiginlega hálfgert stríðsástand, þar sem menn geta sett upp falskar bílasölur og svindlað. Við erum að fara þá leið í staðinn fyrir að stórauka kröfur um löggildingu hvað varðar bílasölu. Rökin fyrir því að um óverulega fjárhæð sé að ræða standast ekki. Þó að kannski sé um tugi þúsunda að ræða getur á annan tug milljóna verið undir. Ég segi fyrir mitt leyti að ég sé engin rök fyrir því að taka þetta út.

Ég spyr hv. framsögumann: Hvernig sér hann þessi rök fyrir sér, hvers vegna í ósköpunum tökum við ekki gilda aðvörun frá Evrópu? Þetta getur valdið því að alls konar ólögleg starfsemi þrífst í þessu. Og er ekki eðlilegt að leyfi þurfi fyrir svona sölu vegna þess að þarna er verið að fara með mikla fjármuni?