150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki verið sammála hv. þingmanni. Hann bendir á þennan kost, þessa kæruheimild, en hefur hann lesið um það hvað það kostar? Viðkomandi verður að standa undir þeim kostnaði sem af því hlýst og það hlýtur að loka á marga sem lenda í því að kaupa bifreiðar sem kosta lítið. Mér skilst líka að lögaðilar geti ekki heldur farið þá leið að kæra þarna, að þeir verði að fara beint til dómstóla. Hv. þingmaður segist vilja afnema þessar leyfisveitingar. Vill hann þá ekki líka afnema leyfisveitingar fyrir fasteignasölu? Eigum við ekki bara að taka þetta alla leið? Ég segi fyrir mitt leyti: Nei, ég get ekki séð rökin í þessu.

Ég spyr hv. þingmann: Hefur hann lesið greinargerð FÍB? Hefur hann lesið hana nákvæmlega? Þar kemur skýrt fram hvað er í gangi. Ég segi fyrir mitt leyti: Þetta er ekki stórmál og ég sé ekki hvers vegna í ósköpunum þarf að fara þessa leið. Það gilda nákvæmlega sömu rök fyrir því að hafa leyfisveitingar þarna inni fyrir notaða bíla eins og fyrir fasteignir. Hv. þingmaður hristir kannski hausinn yfir því. En ég segi fyrir mitt leyti og skýrði það út að þeir sem ætla að fara í þá kæruleið sem bent er á þurfa að standa undir þeim kostnaði.