150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Munurinn á mér og hv. þingmanni er sá að ég vil einfalda regluverkið. Ég vil einfalda þær reglur sem gilda almennt um atvinnulífið og atvinnustarfsemi. Hv. þingmaður vill leyfisbinda það eins mikið og hægt er og ég spyr þá bara hv. þingmann: Af hverju þá að binda okkur við notaða bíla? Fólk er að ráðast í aðrar fjárfestingar sem eru jafn miklar. Það er hægt að kaupa sjónvarp á eina og hálfa milljón. Eigum við þá ekki að leyfisbinda það þannig að enginn megi selja sjónvörp öðruvísi en að hafa til þess sérstakt leyfi? Við getum þá bara tekið raftækjaverslun ríkisins upp aftur o.s.frv. Menn eru að ráðast í að kaupa sér eldhúsinnréttingar fyrir fleiri hundruð þúsundir. Fyrir marga er það stórkostleg fjárfesting. Eigum við ekki að leyfisbinda það líka? Hvar ætla menn að enda, hæstv. forseti? Ég bara skil ekki þessa umræðu.

Við eigum að einfalda regluverkið og gera það auðveldara að stunda viðskipti og það eitt bætir viðskiptin og bætir hag neytenda, hv. þingmaður. Þetta er svona einfalt. Sagan sýnir það og sannar og það skiptir engu máli hversu oft og hratt hv. þingmaður hristir hausinn.