150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Eitt af markmiðum Sjálfstæðisflokksins, eins og ég skil þau, er að auka frjálsræði og berjast fyrir heilbrigðari viðskiptum, berjast fyrir því að samkeppni sé næg og að viðskipti gangi fyrir sig með heiðarlegum og eðlilegum hætti. Við erum búin að sjá tvær birtingarmyndir þessarar stefnu Sjálfstæðisflokksins á því þingi sem nú stendur yfir. Sjálfstæðisflokkurinn er nefnilega búinn að finna aðila sem reka markaðsráðandi starfsemi eins og t.d. leigubílstjóra sem á nú að skera niður við trog, neytendum til hagsbóta eins og það er sagt. Á sama hátt á að taka fyrir eina stétt manna sem sætir því að vera löggilt, vera með starfsábyrgðartryggingu o.s.frv., og taka þetta allt af í nafni frjálsræðis og gefa hverjum sem er veiðileyfi á almenna neytendur sem eru í þeim sporum að fjárfesta í kannski næststærstu fjárfestingu sinni á lífsleiðinni. Þá er ég bara að tala um meðaljóninn, hans stærsta fjárfesting er hugsanlega fasteignin sem hann býr í og númer tvö er ökutækið eða ökutækin sem hann ræður yfir.

Svo vill til að í nýlegum umsögnum við það frumvarp sem hér liggur fyrir, og eru skrifaðar af aðilum sem hafa bein tengsl inn í þessa starfsemi og mikla reynslu af því hvernig hún fer fram, er varað við því að frumvarpið verði samþykkt. Þetta eru Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Bílgreinasambandið. En Sjálfstæðisflokkurinn segir: Hvað vita þessir menn um þetta? Við þurfum bara að gera þetta þannig að það sé einfalt að stofna til þessarar starfsemi og síðan á einhver nefnd úti í bæ, sem kostar örugglega ekki neitt og Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að koma á fót af því að hann er að minnka ríkiskerfið, að redda því ef eitthvað kemur upp á í viðskiptum þessara aðila, þ.e. bílasala og neytenda.

Herra forseti. Það er ekki af engu sem löggilding bifreiðasala var sett á milli 1990 og 1995, líklega árið 1994. Það er út af því að á þeim tíma urðu kaupendur oft og tíðum fyrir bæði fjárhagslegum skaða og ýmsum óþægindum af því að versla við aðila sem voru ekki til þess bærir, sinntu ekki hlutverki sínu sem skyldi. Þess vegna var regluverkið sett utan um þessa starfsemi.

Vestur í Ameríku hafa menn ágætismálshátt sem er einhvern veginn á þá leið að ef eitthvað er í lagi þá á ekki að breyta því, það á ekki að eiga við það. Þessi tilhögun sem hefur verið frá 1994 hefur, herra forseti, bara virkað dável. Það hefur ekki verið mikið um það að menn þurfi að fara fyrir dómstóla með ágreiningsmál út af sölu og kaupum á notuðum bifreiðum einfaldlega vegna þess að starfsumhverfi þeirra sem eiga að sjá um viðskiptin hefur verið með þeim hætti að bæði hafa menn þurft að hafa löggildingu og starfsábyrgðartryggingu mjög væna. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Hvetur nefndin til að þrátt fyrir brottfall leyfisskyldunnar verði þeim sem starfa við sölu notaðra ökutækja áfram gert kleift að afla sér sérþekkingar á því sviði á þar til gerðum námskeiðum.“

Það er hvatt til þess. Það þarf ekki að gera það en það er hvatt til þess.

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur einasti maður sem ætlar á annað borð að spara sér óþægindi fari að sækja námskeið sem þarf ekki að gera, bara af því að hann er hvattur til þess. Þá segir maður: Ef þessi námskeið eru þrátt fyrir allt nauðsynleg, hvers vegna eru þau þá ekki lögbundin? Hvar er ábatinn í því að eiga þessi viðskipti? Maður hlýtur líka að pæla í því hvar menn ætli að stöðva. Hér var dregin upp áðan fáránleg myndlíking af einhverjum sjónvörpum og eldhúsinnréttingum. Það þarf nú reyndar verslunarleyfi til að versla með hvort tveggja, ef ég man rétt, alla vega síðast þegar ég vissi, jafnvel aðstöðu, þannig að sá samanburður er út í hött. Maður hlýtur að spyrja með aðila eins og þessa, löggilta bifreiðasala í dag: Hvar ætla menn að hætta? Verða næst dregin niður réttindi og skyldur fasteignasala? Verður mönnum gert auðveldara að opna lögmannsskrifstofur? Hvar ætla menn að stoppa við í þessari einföldun sinni á regluverkinu?

Það var nefnilega, eins og ég sagði áðan, herra forseti, ekki af engu sem þessar reglur voru hertar á sínum tíma. Það vill svo vel til að sá sem hér stendur þekkir nokkuð vel til þessara aðstæðna því eins og áður hefur komið fram í ræðu á þinginu þá sat hann í fyrstu stjórn Félags löggiltra bifreiðasala og var einn af þeim fyrstu sem öðlaðist þessi löggiltu réttindi með því að sækja námskeið. Þess vegna þekkir sá sem hér stendur nokkuð vel til þess ástands sem hér ríkti áður en þessi herðing á regluverki varð. Menn geta talað sig bláa í framan yfir því að með samþykkt þessa frumvarps verði hér allt slétt og fellt og það verði ekkert vesen af þessu. Ég er hins vegar tilbúinn í að veðja poka af súkkulaðirúsínum um það að svo verður ekki. Um leið og þetta frumvarp er samþykkt og byrjað að virka mun ástandið verða eins og það var fyrir árið 1994. Það verður sem sagt svona villta vesturs ástand og misheiðarlegir aðilar munu vaða uppi, nákvæmlega eins og var fyrir árið 1994.

Það eru eiginlega allflestir sem læra af reynslunni, meira að segja dýr í tilraunabúri læra af reynslunni. Ef þau fá í sig straum þá fara þau ekki lengur þar sem hann er. Þau fara annað, þau læra af reynslunni. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lært af reynslunni og ætlar ekkert að læra af reynslunni. Hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ætlar ekki að gefa mikið fyrir þá reynslu sem er fyrir hendi í þessum málum heldur á nú að opna þennan markað upp á gátt.

Það er mjög gott að einfalda regluverk og auðvitað er mjög gott að stuðla að meiri samkeppni o.s.frv. En ég er bara ekki á sama stað og Sjálfstæðisflokkurinn í því máli. Ég hefði viljað fara í markaðsráðandi aðila í smásöluverslun eða eitthvað slíkt, breyta samkeppnislögum um eignarhald o.s.frv. Það hefði verið alvöruverkefni sem hefði komið neytendum vel. En að fara af stað með einhvern lurk og elta bifreiðasala, það er svo smátt. Fyrir utan það að bifreiðasalar eru bara annar aðilinn að viðskiptunum. Hinn aðilinn er kaupandinn eða eru kaupendur. Og þó að það sé ofsalega göfugt að gera mönnum kleift og auðveldara að stofna til fyrirtækjareksturs er jafn brýnt, herra forseti, að tryggja rétt þeirra sem eiga eftir að eiga viðskipti við þessa sömu aðila. Það er ekki síður mikilvægt atriði. En það atriði, herra forseti, er hvergi í þeim plöggum sem hér eru, hvergi. Það er ekki verið að hugsa til þessa hóps að einu eða neinu leyti nema að það er bent á að þeir geti borið erindi sín upp við nefnd sem á að koma á fót og, eins og ég segi, kostar væntanlega ekki neitt og það á að stækka ríkisbúskapinn sem þessari nefnd nemur í stað þess að hafa bara almennilegar reglur eins og gilda í dag um þessi viðskipti sem halda það vel að afar fá mál hafa ratað til dómstóla út af verslun með notuð ökutæki.

Um daginn sagði mér ágætur maður sem stundar þessa starfsemi að mikill hluti af tíma hans í dag færi í það að leiðrétta ýmis skjöl sem unnið er með þegar ökutæki eru seld í gegnum miðla eins og, ég man ekki hvað þeir kallast, Brask og bland eða eitthvað slíkt. Þar eru menn að selja hver öðrum ökutæki en ganga ekki rétt frá á pappírunum. Þessi ágæti maður, sem ég veit að er sannsögull, sagði mér að mikill meiri hluti af hans tíma færi núna í að leiðrétta bæði skráningarskipti, veðaflýsingar, afsölin sem slík. Allt væri þetta í skötulíki. Þegar í harðbakkann slær leitar það fólk sem hefur lent í vandræðum til löggilts bifreiðasala til að vinda ofan af málinu. En eftir að þetta frumvarp tekur gildi þá fer þetta sama fólk örugglega bara í þessa nefnd, sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að stækka ríkisbáknið um, til að leita réttar síns ef eitthvað kemur upp á í viðskiptum þess við réttindalausa bílasala, sem þurfa ekki einu sinni að hafa aðstöðu samkvæmt frumvarpinu og geta bara verið að selja á götum úti.

Eins og hér hefur verið sagt áður eru þeir sem drýgst þekkja til, eins og Bílgreinasambandið og Félag íslenskra bifreiðaeigenda, alfarið á móti því að þetta mál verði afgreitt með þeim hætti sem hér er. Maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna vilji manna til að skemma þetta mál er svo einbeittur að þeir hlusta ekki á varnaðarorð, nákvæmlega eins og þau varnaðarorð sem sá sem hér stendur hefur uppi núna. Hann gæti tekið undir nánast hvert einasta orð sem segir í þessum umsögnum sem ég vitnaði til, bæði Bílgreinasambandsins og Félags íslenskra bifreiðaeigenda. En með þetta á ekkert að gera, herra forseti, ekki neitt. Þannig að ég ætla enn að vera sá aðili sem varar við því að þetta frumvarp verði gert að lögum. Ég vara við afleiðingunum af því ef svo verður gert. Það getur vel verið að ég sitji þá undir einhverjum frjálshyggjupredikunum af hálfu Sjálfstæðisflokksins, það verður bara að hafa það. En ég bendi aftur á það sem ég sagði áðan að ef menn vilja gera eitthvað sem um munar í samkeppnismálum á Íslandi ættu menn að stökkva á samkeppnislögin og reyna að sníða af þeim augljósustu gallana í stað þess að breyta hlutum sem virka vel og að eltast við fámenna stétt manna sem vinnur gott verk undir töluverðu álagi og hefur staðið sig með miklum sóma undanfarinn tvo og hálfan áratug sem liðinn er frá því að téðar breytingar voru gerðar.

Herra forseti. Ég vona að hér á þinginu verði samstaða um að forðast þau mistök sem hér er verið að gera. Við gerum nóg af þeim hér á þessum stað. Að sjálfsögðu mun ég taka þátt í því að vinda ofan af þessum mistökum þegar þar að kemur, með nýrri lagasetningu sem ég veit að mun líta dagsins ljós innan skamms. Verði ég staðsettur á þingi þegar það gerist mun ég að sjálfsögðu taka þátt í því að leiðrétta þennan gjörning sem er ekki til þess fallinn að bæta ástandið í sölu á notuðum bifreiðum á Íslandi.