150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[19:13]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svörin. Í sjálfu sér er sjö bara einhver tala. Ég hef sjálfur lent í því að henda fram tölu sem hljómar vel. Það eru engin sérstök rök þar að baki. Það er allt í lagi með það en frumvarpið eins og það kemur fyrir gengur út frá því, nema ég sé haldinn miklum misskilningi, að lagt sé til að stjórnin hafi ekki vald til að ráða og reka forstjóra. Í 1. gr. frumvarpsins er hlutverk stjórnarinnar skilgreint. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn skal staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun og marka henni langtímastefnu. Skal stjórnin hafa eftirlit með starfsemi stofnunarinnar og að rekstur hennar sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma. Formaður stjórnar skal reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi …“ o.s.frv.

Þetta eru verkefnin sem lagt er til í frumvarpinu að stjórnin sinni sem þýðir í mínum huga að ekki er hægt að vera með lögjöfnun og segja: Stjórnin hefur það hlutverk og þá ábyrgð að ráða forstjórann og ber ábyrgð á forstjóranum gagnvart ráðherra, þinginu, í rauninni öllum þeim sem þurfa að leita til Landspítalans sem og starfsmönnum.

Flutningsmenn hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að gera stjórnina vanmáttuga. Það er það sem ég er að reyna að benda á nema ég misskilji greinina eitthvað. Mér heyrðist á svari hv. flutningsmanns áðan að skilningur minn væri réttur: Það á ekki að fela stjórninni eitt mikilvægasta stjórntækið sem gerir henni kleift (Forseti hringir.) að sinna þeim verkefnum sem flutningsmenn vilja að stjórnin hafi með höndum og beri ábyrgð á gagnvart okkur öllum.