150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

skýrsla um bráðamóttöku Landspítalans.

[10:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þekki þá umræðu sem kemur hér fram í máli hv. þingmanns. Ég vil samt leyfa mér að lýsa mig ósammála þeim grundvallarskilningi að Landspítalinn sé fyrirtæki. Landspítalinn er fyrst og fremst vettvangur þriðja stigs heilbrigðisþjónustu sem er auðvitað gríðarlega mikilvægur hluti af öflugu velferðarkerfi og innviðum þjónustu sem við þurfum að geta veitt sem fullvalda ríki, en er ekki fyrirtæki eins og hvert annað. Hefðbundin stjórn yfir Landspítala myndi engu breyta um ábyrgð forstjóra spítalans. Hann er eftir sem áður ábyrgur fyrir allri starfseminni, fjárhag og mannafla. Eini munurinn frá því sem er í dag er að forstjórinn ber ábyrgð sína gagnvart stjórnarformanni og stjórn spítalans í stað ráðherra beint. Þetta eru þættir sem þurfa að koma til umfjöllunar í ljósi þess hvernig við skipuleggjum okkar framkvæmdarvald og stofnanir samfélagsins að öðru leyti og hversu skýr ábyrgð forstjóra allra ríkisstofnana er gagnvart sínum ráðherra í hverjum málaflokki.