150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn.

374. mál
[12:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kæri mig reyndar kollóttan um hvort hv. þingkona telur að ég sé rýr að efni og haldi mig við form. Það skiptir hins vegar töluverðu máli í þessu tilfelli. Hér er um að ræða formann utanríkismálanefndar sem þar að auki er framsögumaður nefndarálitsins og henni ætti að vera fullkunnugt um þær umræður sem hafa orðið og verið um þetta mál í nefndinni. Þá er rétt að upplýsa hér að upphafleg drög að nefndaráliti sem formaður nefndarinnar kynnti voru miklu meira í samræmi við þá ræðu sem hún flutti hér, en um það nefndarálit náðist ekki sátt.

Því að utanríkismálanefnd sé stimpilpúði vísa ég á bug. Töluvert hefur verið fjallað um þetta mál. Við njótum þess líka að sækja álit frá öðrum nefndum sem eru sérstaklega til þess fallnar að fjalla um einstaka þætti, t.d. innleiðingar mála. Hér er um býsna einfalt mál að ræða. Við erum að uppfylla skyldur sem við erum búin að undirgangast og niðurstaða mikils meiri hluta nefndarinnar, að undanskildum tveim þingmönnum sem voru samþykkir nefndarálitinu en með fyrirvara, var talið réttara að hafa það knappara og með þeim hætti sem birtist uppprentað. Það hefði verið miklu eðlilegra fyrir hv. þingkonu að koma í ræðu á eftir og gera grein fyrir sinni persónulegu skoðun en ekki mæla fyrir hönd nefndarinnar með þeim hætti sem hún gerði.