150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn.

374. mál
[12:26]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mikill misskilningur að ég hafi verið að mæla sérstaklega fyrir hönd nefndarinnar í þessari ræðu. Ég er að rekja staðreyndir málsins og fjalla um umfjöllun sem átt hefur sér stað á þinginu. Það hefði verið stórmannlegt af hv. þm. Loga Einarssyni, sem hefur setið í utanríkismálanefnd lengur en ég, að gera nefndinni grein fyrir því og draga fram þau atriði sem nefndin fékk á sameiginlegum fundi sínum með umhverfisnefnd fyrir ári þar sem þetta mál var rætt efnislega að einhverju leyti en skilaði sér með engum hætti inn í afgreiðslu og þinglega meðferð þessa máls. Það var fyrir tilviljun sem ég rak augun í þá annars ágætu glærukynningu sem nefndin hafði fengið fyrir ári. Ég get ekki ímyndað mér af hvaða ástæðum og af hverju í ósköpunum slík kynning ætti ekki að vera gerð opinber til upplýsingar fyrir þetta mál til þess að skapa grundvöll fyrir málefnalega umræðu um þessi mál sem hvergi nærri er lokið umfjöllun um. Ég skil ekki af hverju hv. þingmaður ætti að vera svona hvekktur yfir því.

Það er alveg rétt að ég hefði talið eðlilegra og æskilegra að hafa ítarlegri umfjöllun um efni málsins í nefndaráliti af þessum toga. Ég tel það reyndar eiga við um mjög mörg nefndarálit, einkum og sér í lagi þó frá utanríkismálanefnd, ekki þó öllum. Ég get alveg fallist á að ekki er ástæða til að vera með flókin nefndarálit eða útlista efni allra þeirra gerða sem verið er að innleiða, en í mjög mörgum þingmálum mega þau mjög vel við frekari umfjöllun nefndarinnar og í nefndarálitum um efni þingmálsins.