150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna tvö atriði. Það vakti athygli mína það sem hv. þingmaður sagði um landgæði og endurheimt landgæða. Við erum með mjög margar og fjölbreyttar vistgerðir sem eru ekkert endilega gerðar fyrir matvælaframleiðslu og ýmislegt annað en við þurfum einnig að huga að varðveislu þeirra því að þær geyma líffræðilegan fjölbreytileika sem er ákveðinn auður líka, tvímælalaust. Við höfum orðið vör við það að ýmiss konar plöntur sem við höfum ekki skoðað nægilega vel hafa gefið af sér mjög nytsamleg prótein fyrir lyf og ýmislegt svoleiðis sem er tvímælalaust ákveðinn auður sem þarf að varðveita sem slíkan. Það er einmitt áhugavert að það sé verið að fjalla um þetta með tilliti til mannréttinda, mjög áhugavert, í samhengi við loftslagsvandamál sem við glímum við og hvernig það er öðruvísi vandamál í frumskógum en hér o.s.frv., en þó allt sama vandamálið þegar allt kemur til alls. Að það sé grundvallað sem mannréttindamál er ákveðin þróun sem er að gerast úti um allan heim, að litið sé á loftgæði og hreint vatn o.s.frv. og náttúruna sem slíka í heild sinni sem mannréttindamál og þróun á notkun lands og náttúruauðlinda sem mannréttindi.

Ég velti því aðeins fyrir mér, kannski í tengslum við stjórnarskrárvinnuna sem er í gangi og auðlindaákvæðið þar, hvort hv. þingmaður hafi séð einmitt þetta atriði koma nægilega sterkt fram í umræðunni um auðlindaákvæðið. Við ættum tvímælalaust að elta þessa alþjóðlegu hreyfingu hvað þetta varðar og grípa tækifærið til að setja þetta sem skilmála, sem mannréttindi, í stjórnarskrána.