150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[17:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við getum náttúrlega kallað það hvað sem er, en ég held að það sé ekki forræðishyggja að vilja að fjármunir sem eiga að ganga til að uppræta fátækt nýtist til þess. (Gripið fram í.) Af þeim 11,2 milljörðum sem rynnu úr ríkissjóði, yrði þetta frumvarp að lögum, vitum við bara ekkert hvort svo yrði. Það þarf að greina.

Til að þingmaðurinn hafi ekki áhyggjur af því að ég sé að finna upp á einhverri afstöðu sjálfur vil ég benda á skýrslu sem var unnin fyrir BSRB. Samtök launafólks tala fyrir bættu barnabótakerfi, þau tala fyrir því að draga úr gjaldtöku í opinberri þjónustu og þau tala fyrir því að ríkið stigi þannig inn og styðji við þá hópa sem helst þurfa aðstoðar við. 11,2 milljarðar myndu nýtast til að græja það komplett. Þá næðum við utan um alla þá hópa sem eru taldir upp í greinargerðinni.

Þingmaðurinn kallar það forræðishyggju að hlusta á greiningar frá verkalýðshreyfingunni, (HallM: Það sagði ég ekki.) en ég kalla það bara skynsemi.