150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[17:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki eitthvað sem ég finn upp hjá mér að segja að við vitum ekki hvort þessi aðgerð muni virka heldur er það bara einföld ábending um að hvergi í þessu skjali stendur hvernig þetta muni virka. Þetta hefur ekki verið greint eins og þingmaðurinn sagði. Það þarf að greina hvernig þetta nýtist til að uppræta fátækt. Það þarf að greina hvernig þetta dreifist á hópa, hvort þetta skili sér til þeirra sem þurfa.

Svo þarf að greina kynjavinkilinn, eins og ég nefndi í upphafsræðu minni, hvort þessi tilraunastarfsemi yrði til þess að halda lágtekjuhópum kvenna áfram niðri, hvort þetta myndi halda áfram utan vinnumarkaðar heimavinnandi konum sem yrðu annars á of lágum tekjum til að það myndi gagnast heimilinu. Svona mat verður að eiga sér stað áður en við tökum þetta mál til einhverrar frekari afgreiðslu og ég reikna með að nefndin geri það allt saman mjög rækilega.