150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

upplýsingalög.

644. mál
[16:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta mál. Ég er með nokkrar spurningar. Vissulega finnst mér mikilvægt að bæta réttarstöðu þriðja aðila og það er mikilvægt að við séum öll viss um okkar réttarstöðu þegar kemur að framfylgd upplýsingalaga. Ég tel að það sé okkur öllum til gagns að það liggi skýrt fyrir hvernig það er. Það skiptir máli hvernig við nálgumst þetta viðfangsefni og hvort mögulegra mótvægisaðgerða sé þörf ef líklegt þykir að málsmeðferðartími fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála lengist fyrir vikið, að það taki fjölmiðla og einstaklinga lengri tíma að fá lausn sinna mála hjá úrskurðarnefndinni vegna þeirra auknu krafna sem gerðar eru á úrskurðarnefndina og vegna þess nýja möguleika að kæra á úrskurði frá þriðja aðila geti frestað réttaráhrifum ákvörðunar úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Ég vil því fyrsta kastið spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að efla úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem því nemur að hún geti tekist á við þann langa hala mála sem hefur verið mjög tímafrekt að takast á við? Hefur ráðherra einhverjar hugmyndir um hvað það þýðir ef einstaklingur kærir og óskar eftir frestun réttaráhrifa í núverandi stöðu í dómskerfinu? Hvað þýða það mikla tafir? Er hægt að fara í venjulegt ferli hjá dómstólum? Mun það jafnvel taka ár að fá niðurstöðu úr því máli? Hefur hæstv. ráðherra metið hvaða áhrif þetta kunni að hafa á t.d. fjölmiðla sem hafa kannski lítið með þær upplýsingar að gera ári síðar?