150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, um neyðarástand í sveitarfélagi. Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði breyting á 131. gr. laganna:

„a. Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Ráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, að sveitarstjórn sé heimilt að víkja tímabundið frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga við stjórn sveitarfélags til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku.

b. Í stað orðanna „1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: 1. og 2. mgr.

c. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Neyðarástand í sveitarfélagi.“

Nú er fyrirsögn 131. gr: „Sveitarstjórn verður óstarfhæf“ en lagt er til að fyrirsögnin breytist í „neyðarástand í sveitarfélagi“.

Lagt er til að lög þessi öðlist þegar gildi.

Frumvarpið er frá umhverfis- og samgöngunefnd og ég ætla að fara yfir greinargerðina sem fylgir. Frumvarpið er lagt fram til að bregðast við óskum frá sveitarfélögum um að skapað verði svigrúm í sveitarstjórnarlögum til að bregðast við því neyðarástandi sem skapast hefur vegna Covid-19 veirusjúkdómsins. Yfirvöld almannavarna hafa gefið út tilmæli um að gætt verði ýtrustu varkárni til að hindra útbreiðslu veirunnar sem veldur sjúkdómnum. Til að hægt verði að bregðast við þeim tilmælum án þess að það torveldi ákvarðanatöku innan stjórnkerfis sveitarfélaga þykir m.a. ástæða til þess að rýmka reglur um fjarfundi í sveitarstjórnum og ráðum og nefndum sveitarfélaga.

Sveitarstjórnarlög hafa að geyma ítarleg ákvæði um stjórnsýslu sveitarfélaga. Lögunum er ætlað að tryggja ákveðna formfestu í stjórnsýslu og er veitt fremur lítið svigrúm í lögunum til að víkja frá þeim meginreglum. Má sem dæmi nefna að eingöngu er heimilt að nota fjarfundabúnað á fundum sveitarstjórna ef fjarlægðir í sveitarfélagi eru miklar eða samgöngur erfiðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að opnað verði á fleiri ástæður til að heimila notkun fjarfundabúnaðar líkt og nú hefur verið gert á Alþingi.

Við neyðarástand, svo sem af völdum náttúruhamfara eða farsótta, er mikilvægt að sveitarstjórnir geti brugðist skjótt við í krefjandi aðstæðum. Kunna aðstæður þá að vera með þeim hætti að sveitarstjórn eða nefndir á vegum hennar eigi tímabundið erfitt með að framfylgja tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga við stjórn sveitarfélagsins. Ljóst er að slíkt ástand kann að tefja eðlilega og nauðsynlega stjórnsýslu sveitarfélagsins auk þess sem óvissa kann að myndast um lögmæti ákvarðana sveitarstjórnarinnar ef vikið er frá formreglum sem eru til staðar. Sveitarstjórnir hafa lykilhlutverki að gegna þegar lýst er yfir almannavarnaástandi. Ljóst er að sveitarstjórnarlögin eins og þau eru núna veita ekki nægilegan sveigjanleika til að bregðast við óvenjulegum aðstæðum. Þó er, eins og ég sagði áðan, tekið á neyðarástandi að nokkru marki í 131. gr. sveitarstjórnarlaga, eins og hún er nú, þar sem ráðuneyti sveitarstjórnarmála er veitt heimild til að skipa sveitarfélagi sérstaka framkvæmdastjórn eða fela sveitarstjórn nágrannasveitarfélags að fara með stjórn sveitarfélags þar sem sveitarstjórn er óstarfhæf sökum neyðarástands. Ljóst er hins vegar að slík ráðstöfun felur í sér verulegt inngrip í stjórn sveitarfélags og lýðræðislegan rétt tiltekinna kjörinna sveitarstjórnarmanna. Þá þarf staðan ekki endilega að vera sú að sveitarstjórn sé óstarfhæf þótt neyðarástand vari. Til að tryggja að starfsemi sveitarfélagsins haldi áfram eins eðlilega og unnt er þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður kann þannig eingöngu að vera nægilegt að sveitarstjórn verði heimilað að víkja frá einstökum ákvæðum sveitarstjórnarlaga, eins og þau eru nú, meðan slíkt ástand varir til að tryggja eða auðvelda að hún verði starfhæf. Hins vegar þykir eðlilegt að heimild ráðherra liggi til grundvallar slíkum frávikum, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, en að nánari útfærsla sé eftirlátin hverri sveitarstjórn þótt ráðuneytið geti gefið út leiðbeiningar um beitingu þessarar heimildar í samráði við sambandið.

Í frumvarpinu er með öðrum orðum lagt til að ráðherra geti heimilað sveitarstjórn að ákveða frávik frá fundarsköpum og hefðbundnum ramma sem sveitarstjórnir starfa innan. Þess vegna er með frumvarpinu lögð til sú breyting á 131. gr. sveitarstjórnarlaga að ráðherra sveitarstjórnarmála geti veitt einstökum sveitarfélögum, þar sem neyðarástand varir, annaðhvort tilteknum sveitarfélögum eða öllum sveitarfélögum, heimild til að haga stjórnsýslu sinni þannig að vikið sé frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga í allt að fjóra mánuði í senn. Ákvæðið um allt að fjóra mánuði í senn er nú þegar í 131. gr. Tímatakmörkun er nú þegar til staðar í lögunum þannig að frávik geta aldrei náð til lengri tíma en fjögurra mánaða, og þá þyrfti að ítreka þau ef þörfin væri lengri. Ekki er tekið fram í frumvarpsgreininni til hvaða lagaákvæða sveitarstjórnarlaga slík ákvörðun geti náð en það gæti oltið á aðstæðum í hverju tilviki. Gera má ráð fyrir að helst komi til skoðunar ákvæði laganna er varða fyrirkomulag funda og lögmælta fresti, t.d. um skil ársreikninga og fjárhagsáætlana. Einnig mætti skoða að víkja tímabundið frá verkaskiptingu innan stjórnsýslunnar, svo sem verkaskiptingu milli nefnda í sveitarfélögum og reglum um valdframsal til fullnaðarafgreiðslu mála.

Gert er ráð fyrir að ákvæðið verði hluti af viðbragðsáætlun ráðuneytisins, og að ráðuneytið líti sérstaklega til reglunnar þegar neyðarstig almannavarna hefur verið virkjað. Þá getur ákvæðið komið til skoðunar að beiðni sveitarfélags þar sem neyðarástand varir og einnig er gert ráð fyrir að ráðuneytið leiti eftir afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en tekin er ákvörðun um hvaða reglum sveitarstjórnarlaga þörf sé að víkja tímabundið frá. Rétt er að árétta að ákvörðun ráðherra getur átt við einstakt sveitarfélag, mörg sveitarfélög eða öll sveitarfélög landsins. Því er mikilvægt að í ákvörðun ráðherra verði tiltekið hvaða sveitarfélög hafi þá heimild sem ákvörðunin tekur til, auk þess sem kveðið verði með skýrum hætti á um það svigrúm sem sveitarstjórn eða sveitarstjórnum er veitt með ákvörðun ráðherra til að víkja frá sveitarstjórnarlögum. Þá skal ákvörðunin vera tímabundin og getur hún mest varað í fjóra mánuði í senn, eins og áður sagði. Vari neyðarástand lengur en fjóra mánuði er þörf á að taka aðra ákvörðun til að framlengja heimildir sveitarstjórnar til að víkja frá sveitarstjórnarlögum. Ákvörðunin tekur gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda, og nú þegar er kveðið á um þá málsmeðferð í sveitarstjórnarlögunum.

Vert er að taka fram að í frumvarpi sem ráðherra hyggst leggja fram á vorþingi um breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga er m.a. gert ráð fyrir rýmri heimildum til sveitarstjórna til að heimila fjarfundi og ýmsum fleiri frávikum frá meginreglum laganna um fyrirkomulag stjórnsýslu. Það frumvarp, svo að því sé skotið inn í, tengist m.a. breytingum og tilraunaverkefnum við sameiningu sveitarfélaga, nýlegum sameiningum sveitarfélaga. En það frumvarp sem hér er til umræðu og hér er lagt fram til að bregðast við neyðarástandi vegna Covid-19 veirusjúkdómsins er í öllum meginatriðum í ágætu samræmi við áherslur í því frumvarpi.

Frumvarpið varðar ekki stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar og þá mun frumvarpið ekki hafa kostnaðaráhrif á ríkissjóð eða sveitarfélög. Frumvarpið er unnið í samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Eins og áður sagði er það umhverfis- og samgöngunefnd sem leggur frumvarpið fram.

Ég hef rakið tilurð og efni frumvarpsins og legg það fyrir þingið og legg til að það verði samþykkt.