150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum breytingu á sveitarstjórnarlögum, frumvarp sem kemur frá umhverfis- og samgöngunefnd. Það er til að bregðast við óskum frá sveitarfélögunum vegna þess ástands sem nú er uppi vegna kórónuveirunnar. Menn eru að reyna að forðast það að fólk hittist of mikið og smit berist á milli. Það er verið að bregðast við því með því að bæta við ákvæði, málsgrein, við 131. gr. Ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd og stend að þessu frumvarpi en hef auðvitað ýmsar athugasemdir og vil velta því aðeins fyrir mér hér.

Sérstaklega finnst mér og hefur fundist lengi að lagatexti eigi að vera skýr og laus við allan orðhengilshátt sem mér finnst víða að finna. Það er alls ekki neitt nýtt. Í ákvæðinu sem þarna er verið að skjóta inn í finnst mér ýmsu ofaukið eins og um ástæðurnar, af hverju þetta er gert. Þá er ég að meina orðalagið „til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf“. Mér finnst það óþarfi. Það gefur augaleið að mínu mati, fyrir hendi er neyðarástand og þá er þessi heimild virkjuð. Mér finnst óþarfi að það sé tiltekið að þetta sé til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf. Ég tel það vera sjálfsagt og augljóst að svo sé. Sérstaklega er það þó endirinn á málsgreininni þar sem stendur að þetta sé til að auðvelda ákvörðunartöku. Mér finnst það líka gefa augaleið að svo sé. Eða til hvers annars?

Samráð sem á að hafa við Samband íslenskra sveitarfélaga er líka eitthvað sem truflar mig. Í fyrsta lagi myndi það alltaf vera þannig að það yrði samráð við sambandið. Það fer auðvitað eftir því hversu brátt neyðarástandið kemur upp, hversu brátt það ber að. Ef það er eins og núna, einhverjir dagar eða vikur, er þetta samráð að sjálfsögðu virkt en það getur komið upp á skjótari hátt og þá er kannski ekki tími til að hafa slíkt samráð. Þá þyrfti ráðherra, til að uppfylla lagaskylduna, að hringja eða ræða við sambandið um þetta. Mér finnst það vera óþarfi líka vegna þess að í lagagreininni eru nokkur atriði sem eiga að tryggja að það séu viss skilyrði fyrir hendi. Í fyrsta lagi yrði að vera neyðarástand. Það er fyrsta skilyrðið. Neyðarástandið verður líka að vera þannig að það þurfi þessa breytingu, þurfi að heimila stjórn að víkja frá tilteknum ákvæðum eins og ákvæðið segir, með tilliti til neyðarástandsins. Eins og ástandið er núna kemur kórónuveiran í veg fyrir að fólk geti hist vegna smithættu á fundum, kannski fjölmennum fundum, og þá er heimilað að hafa fjarfundi. Það er auðvitað sjálfsagt í því ástandi sem nú er og auðvelt að hafa samráð í því tilfelli sem við erum að tala um núna.

Þetta er það fyrsta sem ég geri athugasemdir við. Mér finnst löggjafinn vera allt of oft með orðhengilshátt í lagatexta, óþarfa setningar, óþarfa innskot um góðan ásetning og markmið sem eru augljós. Þetta er dæmi um það. Ég ætla alls ekki að setja mig upp á móti frumvarpinu þess vegna, alls ekki, og ég get fellt mig við textann eins og hann er, en bendi á þetta. Þetta er kækur sem er orðinn allt of algengur, að orðlengja hlutina allt of mikið og fyrir vikið eru lög oft óskýr og ekki bara óskýr heldur útsett fyrir að vera misskilin og hugsanlega misnotuð þannig að það er til mikils að vinna að hafa lagatexta skýran.

Hvað er neyðarástand? Það er auðvitað mat og yrði líklega í þessu tilfelli mat ráðherra, færi eftir því hversu brátt það bæri að. Ef það bæri mjög brátt að yrði það kannski bara ráðherra einn sem myndi ákveða þetta, að höfðu samráði sem þarna er áskilið, en í öðrum tilvikum gæfist tími til að hafa frekara samráð, hugsanlega við ríkisstjórn, aðra ráðherra og jafnvel þingið ef út í það færi.

Ástæðan fyrir þessu eru nefndir fjarfundir. Það getur auðvitað verið margs konar neyðarástand í gangi sem getur kallað á inngrip af þessu tagi þó að ég hafi kannski ekki dæmin fyrir framan mig eða hafi hugarflug eða ímyndunarafl til að ímynda mér hvað gæti komið upp á þannig að einhver önnur ákvæði yrðu virkjuð, fyrir utan fjarfundi og ýmislegt slíkt. Það er reyndar gert ráð fyrir því í 131. gr., um sveitarstjórn sem verður óstarfhæf vegna neyðarástands, að ráðherra er gefin heimild til að skipa yfir hana framkvæmdastjórn eða fela sveitarstjórn í nágrenninu að taka yfir stjórn sveitarfélagsins. Það segir manni auðvitað hvað er verið að hugsa um þarna, þ.e. að tryggja stjórn á sveitarfélaginu. Ákvæðið sem við erum núna að tala um er einnig til þess að minnka líkur á því að slík uppákoma verði, að það þurfi að fela öðru sveitarfélagi eða hugsanlega einhverri framkvæmdastjórn þau völd sem sveitarstjórn hefur eða einhvern hluta af þeim. Það er verið að fylla greinina að mínu mati enn frekar.

Ef neyðarástand kemur mjög brátt upp þá gerast hlutirnir auðvitað án þess að menn sjái það nokkuð fyrir og menn taka ákvarðanir sem þeir í venjulegu ástandi tækju eftir formlegum leiðum, eins og lögin gera ráð fyrir og öll lög auðvitað. Það heitir að nauðsyn brjóti lög, sem er auðvitað þekkt og við erum ekki að ræða um það hér.

Ég ætla kannski að minnast á eitt í viðbót, varðandi almannavarnir. Í sameinuðum stórum sveitarfélögum eins og nú eru að verða algengari og verða trúlega algengari á næstu árum, sveitarfélög verða stærri, eru jafnvel margir byggðakjarnar. Það er ekki eins og algengt var að það var einn stór byggðakjarni í hverju sveitarfélagi. Nú eru til sveitarfélög sem eru með tvo, þrjá og þeim fjölgar hugsanlega. Þá kemur upp ein spurning í mínum huga varðandi neyðarástand því að almannavarnir eru líka að sameinast, almannavarnanefndir eru komnar yfir stærra svæði, þær eru miðstýrðari, taka yfir stór landsvæði víða á landinu en þó ekki alls staðar. Þá kemur upp þessi spurning: Það kemur upp neyðarástand en almannavarnanefndin er kannski stödd að megninu til eða að öllu leyti í öðrum byggðakjarna og stjórnandinn, lögreglustjórinn, er staddur í allt öðrum byggðakjarna eða allt öðru sveitarfélagi. Nýjasta dæmið eru snjóflóðin. Það þarf auðvitað heimild í almannavarnalög til þess að skipa stjórnanda yfir almannavörnum í slíkum tilvikum. Það þarf að vera einhver aðili sem tæki að sér stjórn almannavarna þegar allt lokast, hugsanlega fjarskipti og fleira slíkt. Það væri ákveðinn aðili, helst á vegum ríkisins, ekki á vegum sveitarfélaga, sem tæki þessa stjórn. Hann mætti ekki vera að mínu mati undir hatti einkaaðila eða félagasamtaka. Það þyrfti helst að vera eins og var hér í gamla daga, þá voru hreppsstjórarnir, þeir voru víða og tóku að sér ýmis hlutverk þegar eitthvað kom upp á. Nú eru þeir fyrir bí en það þarf að styrkja almannavarnakerfið að þessu leytinu til, finna ábyrgan aðila í þeim tilvikum þar sem það kemur upp að fjarskipti lokast, leiðir lokast og almannavarnanefnd er víðs fjarri. Þá þarf einhver að geta tekið af skarið og borið ábyrgð, stjórnað aðgerðum og tekið stjórn. Ég vildi benda á þetta í leiðinni. Það hefði mátt fylgja þessu frumvarpi en það liggur kannski ekki eins mikið á.

Dæmi um það sem við erum að tala um núna, afbrigði frá sveitarstjórnarlögum, er t.d. bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar sem eru nú orðin sjaldgæf en voru algeng hér áður fyrr. Það er dæmi um afbrigðilega meðferð lagasetningar og vissulega var mikið deilt á það. En nauðsyn brýtur lög. Þarna er horfið frá því að fara í gegnum þingið en með ákveðnum skilyrðum, það er dæmi um eitthvað svipað, auðvitað alls ekki sambærilegt, en svipað.

Annað sem er í þessari grein, ég var búinn að tala um neyðarástandið, það verður að vera til staðar, er að þetta er bundið við stjórn sveitarfélagsins. Ég skil orðalagið í greininni þannig. Það má kannski skýra orðalagið betur en ég les það þannig að heimildin sé bundin við þau tilteknu ákvæði í sveitarstjórnarlögum sem fjalla um stjórn sveitarfélagsins, ekki öll ákvæðin 140 eða hvað þau eru mörg. Það má kannski misskilja þetta ef maður les greinina en ég les þetta svona. Kannski má laga þetta eða skýra betur.

Þessi heimild er tímabundin, virkar í ákveðinn tíma. Það er ráðherra sem tekur þá ákvörðun að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðherra ber að sjálfsögðu ábyrgð á þeirri ákvörðunartöku. Ef í ljós kemur að hann er að misnota þetta, fara út fyrir hugsunina og nýta sér eitthvert ástand sem er ekki neyðarástand í raun, þá er hann að sjálfsögðu ábyrgur eftir lögum varðandi það.

Eins og ég sagði hér fyrst er ég sammála þessu frumvarpi, ég geri ekki stórar athugasemdir við það þó að það verði afgreitt óbreytt, en ég myndi vilja öðruvísi orðalag. Það má kannski styrkja orðalagið, ég átta mig á því. Ég ber þá von í brjósti að frumvarpið fari aftur til nefndar til umfjöllunar þar sem verði tekið á þeim athugasemdum sem hafa komið fram við 1. umr. og nefndin skoði það með opnum huga að laga þetta kannski í einhverjar áttir. Ég geri mér fulla grein fyrir því að sú átt sem ég er að tala fyrir er allt önnur en hv. þingmenn Pírata hafa verið að lýsa í ræðustól, allt önnur átt, en það má skoða þessar ágætu ábendingar hv. þingmanna Pírata. Það mætti skoða hvort taka eigi inn einhverja kafla í lögunum, miða við að ákvæðið eigi við um þennan kafla eða hinn, þessi ákvæði eða hin. Það er auðvitað augljóst að þetta á alls ekkert við sum ákvæði sveitarstjórnarlaga og kæmi aldrei til. En kannski má gera þetta skýrara.