150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi útfærsluna á þessu máli þá hef ég fengið þau fyrstu viðbrögð að með því að fresta helmingi gjalddagans, skilja eftir 22 milljarða úti í atvinnulífinu, séum við að mæta vel væntingum til þessarar aðgerðar. Þegar spurt er: Hvenær verða aðrar aðgerðir tilbúnar? þá myndi ég bara svara því þannig að við höfum þegar sagt mjög skýrt um tilteknar aðgerðir. Ég nefni sem dæmi gistináttaskattinn. Þetta er líka skýr aðgerð þó að útfærslan varðandi framhaldið sé í smíðum.

Ég er ekki einn þeirra sem trúa því að þeir sem hafa stokkið fram síðustu vikuna eða tíu dagana og lýst yfir að það sé þetta sem verði að gera og nákvæmlega svona, og jafnvel þótt einstakar ríkisstjórnir hafi komið með aðgerðaplön sín, þá ætla ég að leyfa mér að fullyrða að fáir af þeim sem fylla þann hóp sjái nákvæmlega fyrir það sem er fram undan. Það er einfaldlega svo gríðarlega mikil óvissa um það nákvæmlega hversu djúp þessi lægð verður og hversu lengi hún varir að það er kannski ekki enn þá komi tíminn til að fullgera aðgerðaplan vegna óvissunnar. Hins vegar munum við útfæra, við skulum segja í næstu viku, allar helstu meginlínur þeirra aðgerða sem munu koma til framkvæmda.

Ég hef nú þegar aðeins farið inn í þá umræðu í þessari viku. Menn hafa verið að nefna þætti eins og tryggingagjaldið og ég segi þá: Við skulum vanda okkur þannig við útfærslu á slíkum málum að áhrifin komi helst þar sem þeirra er þörf. Ég nefni sem dæmi að 1 eða 2% lækkun á tryggingagjaldi út árið, svo dæmi sé tekið, gerir ekkert annað en að lækka launakostnað þeirra fyrirtækja um nákvæmlega þá prósentu og ég held að áhrifin muni lítið duga þó að þau kosti ríkissjóð gríðarlega mikið. Við þurfum að safna slagkraftinum saman og kýla þetta í gegn þar sem við viljum ná áhrifunum fram, líklega að þjappa áhrifunum þegar krísan er dýpst.