150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál sé fram komið og þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir ræðuna og þetta mál. Hann hefur sagt ítrekað og ég fagna því að nú sé tími til að gera heldur meira en minna og ég vona sannarlega að sú verði raunin vegna þess að fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru frekar fálmkennd, ef satt skal segja. Þrátt fyrir að niðurfelling gistináttagjalds komi sér vel er ferðamennskan ekki bara hótelrekstur. Birgjar selja hótelunum varning. Fyrsta rútufyrirtækið er farið. Það munar ekki mikið um niðurfellingu gistináttagjalds í þeim geira.

Ég bíð spenntur eftir því að fram komi á næstu dögum fleiri aðgerðir sem boðaðar hafa verið. Ég vil nefna bara nokkur atriði sem ég held að blasi við að þurfi að taka á, svo sem lækkun eða niðurfelling tryggingagjalds og að tryggja að einyrkjar geti komist á atvinnuleysisskrá líkt og gerðist árið 2009. Ég held að núna sé líka tími fyrir ríkisstjórnina til að taka t.d. upp viðræður við lífeyrissjóðina upp á það að gera að þeir fari í kjölfar eins viðskiptabankans, merkilegt nokk ekki ríkisbanka, og frysti gjalddaga. Við erum núna þegar með atvinnuleysi sem er vaxandi og það var vaxandi áður en þeir atburðir gerðust sem nú eru orðnir.

Ég kom eiginlega hingað upp til að hvetja hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnina alla til að hlusta eftir tillögum. Nú er einmitt sá tími uppi að það á við að það er sama hvaðan gott kemur. Ég þykist vita að allflestir hér inni séu tilbúnir að taka á með ríkisstjórninni. Við í Miðflokknum erum það eins og fram hefur komið, en ég hvet hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina alla til að hlusta eftir góðum tillögum sem koma frá stjórnarandstöðunni og hagsmunaaðilum, aðilum vinnumarkaðarins o.s.frv. til að við lágmörkum það tjón sem verður af þeim atburðum sem nú eru orðnir. Auðvitað hefur það komið fram og það er alveg hárrétt að við erum betur í stakk búin nú og betur undirbúin til að takast á við tímabundna erfiðleika en oft áður. Við höfum bitra reynslu af því að takast á við hrun. Við horfum ekki framan í hrun núna heldur tímabundið ástand sem við sem hér erum getum átt drjúgan þátt í að lágmarka og leysa sem fyrst. Ég vil ámálga að það kostar líka og getur kostað meira að gera ekki nóg þannig að það þarf að taka djarfar og stórar ákvarðanir. Ég held að ríkisstjórnin fái stuðning við þær komi þær fram.

Ég vil minnast á eitt í viðbót og það er vísitölubinding lána. Nú er erlendur gjaldeyrir á fleygiferð upp á við. Dollarinn var tæpar 132 kr. í morgun ef ég tók rétt eftir. Þetta verður ávísun á að vísitalan hækki hér verulega og þar með lán landsmanna. Það er hægt að taka vísitöluna úr sambandi tímabundið, t.d. í tvo, þrjá mánuði, til að þunginn af þessum atburðum lendi ekki á fólki sem er misvel undirbúið til að takast á við þá. Þá minnist ég aftur á þann hóp sem nýlega hefur misst vinnu, frá því í fyrra, stærstu hópuppsagnir sem við sáum frá því í fyrra þegar t.d. þegar Wow datt upp fyrir. Við þurfum að huga að þessum hópum til að við fáum ekki aftur það ástand að fólk missi eignir í stórum stíl eins og gerðist áður.

Það er kannski kaldhæðni örlaganna, herra forseti, að akkúrat þessa dagana er verið að selja norskum fjárfestum fyrirtæki sem á 1.300 íbúðir. Ég hef grun um að í þessum hópi íbúða séu íbúðir sem Íbúðalánasjóður tók af fólki áður og fyrr og ekki hafa fengist upplýsingar um hvar lentu. Þær hafa örugglega gengið kaupum og sölum fjórum eða fimm sinnum og eignarhaldið er núna á leið til Noregs. Við þurfum að aðgæta að slíkt ástand komi ekki upp og að slíkt gerist ekki aftur. Við megum ekki við því að fólk sem er nýbúið að koma sér á fætur að afloknum þeim tíu árum sem liðin eru frá hruni eða þar um bil lendi í kröggum. Við þurfum að aðgæta að þetta fólk verði ekki aftur fyrir sömu búsifjum og í kjölfar hrunsins hins fyrra.

Að því mæltu ætla ég að segja aftur að Miðflokkurinn styður allar góðar tillögur sem ríkisstjórnin leggur fram. Miðflokkurinn á töluvert af góðum tillögum sem væri þarft fyrir ríkisstjórnina að hlusta á. Við erum fúsir til samstarfs um að ganga til þess að leysa þetta verkefni.