150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[16:00]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir.

Frumvarpið byggir á yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirrituð var 5. mars sl. um samfélagslega nauðsyn þess að hægja á útbreiðslu veirunnar Covid-19. Það góða við þetta mál er að við höfðum viku til að vinna það en ekki bara einn og hálfan sólarhring.

Það var áskilið í yfirlýsingunni sem undirrituð var 5. mars að þetta frumvarp skyldi koma fram og var það lagt fram föstudaginn 13. mars. Í yfirlýsingunni kom fram að markmið sóttvarna væri að hægja á útbreiðslu veirunnar, vernda viðkvæma hópa fyrir smiti og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið og innviði samfélagsins á meðan veiran gengur yfir. Sóttkví er mikilvægt úrræði í þessu skyni og þess vegna hefur því verið beint til almennings að hann virði fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda um að dvelja í sóttkví fái fólk slík fyrirmæli. Ákvörðun um sóttkví er tekin með hagsmuni heildarinnar í huga og því mikilvægt að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að koma til móts við atvinnurekendur sem greiða launamönnum laun á meðan þeir sæta sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að árétta þetta sérstaklega vegna þess að yfirlýsingin sem undirrituð var á milli atvinnulífs, verkalýðsfélaga og ríkisstjórnarinnar fól það í sér að Samtök atvinnulífsins beina þeim tilmælum til félagsmanna sinna að greiða einstaklingum sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda full laun en að atvinnurekandinn geti síðan sótt greiðslur til ríkisins upp að ákveðinni upphæð. Ljóst þykir að áhrif veirunnar á vinnumarkaðinn kunna að verða slík að einhverjum atvinnurekendum geti reynst ómögulegt að greiða laun starfsmanna vegna tekjufalls.

Frumvarpinu er því jafnframt ætlað að koma til móts við þá launamenn sem verða fyrir tekjufalli þar sem þeir fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda á meðan þeir sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Það er einfaldlega gert vegna þess að þetta eru bara tilmæli af hálfu Samtaka atvinnulífsins til félagsmanna sinna en þarna eru ákvæði um að einstaklingarnir geti líka sótt í þessar greiðslur. Það á þó að heyra til undantekningartilfella.

Þá er frumvarpinu ætlað að koma til móts við sjálfstætt starfandi einstaklinga sem verða fyrir tekjutapi þegar þeir sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Í þessum tilteknu tilvikum verður því unnt að sækja um greiðslur úr ríkissjóði enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Vinnumálastofnun mun annast afgreiðslu þessara umsókna.

Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðsla verði sú sama, miðað við heilan almanaksmánuð, og hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfum launamanna, þ.e. 633.000 kr., sem þýðir þá að hámarki 21.000 kr. fyrir hvern dag sem launamaður sætir sóttkví.

Frumvarpið tekur til atvinnurekenda og einstaklinga á almennum vinnumarkaði þar sem ríki og sveitarfélög hafa lýst því yfir að starfsmenn þeirra fái greidd laun komi til þess að þeir sæti sóttkví. Þetta á bara við um almenna vinnumarkaðinn. Gert er ráð fyrir að tímabilið sem um ræðir miðist við 1. febrúar sl. en heilbrigðisyfirvöld gáfu fyrstu fyrirmælin um sóttkví í byrjun febrúar. Mikil óvissa ríkir þó um þróun þessa faraldurs og ómögulegt er að segja til um hversu lengi þurfi að grípa til sértækra aðgerða vegna hans. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tímabilinu ljúki 30. apríl nk. Það yrði þá sjálfstæð ákvörðun ef tekin yrði ákvörðun um að framlengja það eftir þann tíma.

Virðulegi forseti. Ljóst er að sú staða sem upp er komin er algjörlega fordæmalaus og nauðsynlegt að bregðast hratt og örugglega við til að tryggja grunnstoðir samfélagsins. Er þetta frumvarp liður í því. Ég hvet nefndina til að fara vel ofan í frumvarpið sem var unnið í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins enda byggir það á yfirlýsingu þeirra og ríkisstjórnarinnar. Þó vil ég segja að síðan frumvarpið kom fram höfum við verið í samtali við sóttvarnalækni um afmarkað ákvæði frumvarpsins sem lýtur að því að gert er ráð fyrir að frumvarpið virkist með þeim hætti að sóttvarnalæknir sendir viðkomandi einstaklingi skilaboð um að hann þurfi að fara í sóttkví. Við vinnslu frumvarpsins var litið svo á að þegar börn yrðu sett í sóttkví væru foreldrarnir sjálfkrafa þar innifaldir en það á ekki við þannig að það er eitt af því sem nefndin þarf að skoða í samstarfi við ráðuneytið, hvort heldur breytt yrði hinni praktísku framkvæmd sem er hjá sóttvarnalækni, sem ekki er komin lending í, eða að bæta við lagaákvæði einhverju um að þegar börn eru sett í sóttkví sé litið svo á að a.m.k. annað foreldrið sé þar með. Eðli máls samkvæmt geta börn á leikskólaaldri sem skikkuð eru í sóttkví af heilbrigðisyfirvöldum ekki verið ein heima án foreldra sinna.

Ég legg áherslu á að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi sem allra fyrst í ljósi þess hve aðkallandi það er. Ég er reiðubúinn að leggja mitt af mörkum þannig að það takist og ég óska eftir, hér eftir sem hingað til í málum sem að þessu lúta, góðri samvinnu við hv. velferðarnefnd og legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til þeirrar ágætu nefndar.