150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[16:08]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Kjarninn í þessu frumvarpi snýr að því að þegar sóttvarnalæknir tekur ákvörðun um að skikka einstaklinga í sóttkví fái þeir í rauninni bara tilskipun um að þeir skuli halda sig inni næstu 14 daga. Það er það sem þarf til að virkja þetta frumvarp og er hluti af yfirlýsingu þar sem atvinnulífið, verkalýðsfélagið fyrir hönd launamanna og ríkið ná saman um að það skuli vera með þeim hætti.

Það er kjarninn í þessu frumvarpi og allt sem lýtur að stuðningi við aðra hópa getur ekki að mínu viti farið inn í þetta frumvarp vegna þess að við erum að einskorða okkur við það þegar sóttvarnalæknir fyrirskipar sóttkví. Hins vegar verða fjölmargir aðilar fyrir þjónustuskerðingu vegna þessara aðstæðna og þegar við setjum á ákveðið samkomubann breytist auðvitað skólastarf og annað. Þá eru fjölmargar áskoranir sem hefur verið bent á, til að mynda af foreldrum fatlaðra barna. Við höfum átt samtöl, m.a. við Þroskahjálp, um þær.

Samkomubann réttlætir ekki að við sem samfélag hættum að sinna lögboðinni þjónustu, hvort sem er ríki eða sveitarfélög, á öðrum sviðum. Það er ekki ákvörðun sóttvarnalæknis eða ákvörðun almannavarna að skerða þá þjónustu. Hins vegar er það verkefni okkar, bæði ríkis og sveitarfélaga, að tryggja að sú þjónusta sé veitt áfram vegna þess að ef hér verður eitt allsherjarsamkomubann og tugir þúsunda skólabarna geta ekki mætt í skólann getur ríkið ekki (Forseti hringir.) greitt öllum þeim foreldrum laun. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem það teymi sem var sett af stað í dag verður að fara í gegnum núna. Ætlunin er að það rýni hvernig við getum áfram veitt þá nauðsynlegu þjónustu sem þarf að veita. Við getum ekki á þessu stigi viðurkennt það sem samfélag að við getum ekki veitt þessa nauðsynlegu þjónustu.