150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[16:17]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ef hv. þingmaður er til að mynda settur í sóttkví fær hann tilmæli frá sóttvarnalækni sem er í rauninni tilskipun um að hann eigi að halda sig inn í X fjölda daga eða lifa eftir þeim tilmælum sem sóttkvíin felur í sér sem í þessu tilfelli eru 14 dagar. Ef sóttvarnalæknir tæki upp á því að gera breytingar á starfi sínu á vísindalegum grunni og senda fólk í 20 daga sóttkví gilda 20 dagar. Ef hv. þingmaður fer í sóttkví í 14 daga, mætir síðan og hittir smitaðan einstakling og er settur aftur í sóttkví eru það önnur tilmæli og þá gildir það. Það sem við erum að segja er að þær ákvarðanir sem sóttvarnalæknir tekur varðandi einstaklinga eru þær sem gilda.

Ef viðkomandi veikist síðan í sóttkví af einhverju öðru en Covid-19, fær bara ælupest, myndi maður líta svo á að hann væri samt sem áður í sóttkví. Kannski þyrfti að skerpa á því í greinargerð eða nefndaráliti. Það væri að æra óstöðugan að ætla að breyta því innan þessara 14 daga. Sá sem er í sóttkví á að tilkynna ef hann verður veikur. Ef viðkomandi einstaklingur greinist hins vegar með Covid á þessu 14 daga tímabili færist hann yfir á veikindagreiðslur vegna þess að þá koma önnur tilmæli frá sóttvarnalækni, viðkomandi einstaklingur hættir að vera í sóttkví og er settur í einangrun. Það er önnur sjálfstæð ákvörðun sóttvarnalæknis og sá sem er settur í einangrun er veikur og nýtur réttinda sem veikur einstaklingur.