150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[16:27]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Líkt og í fyrra máli vil ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta mál og ræðu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, formanns velferðarnefndar. Þetta er snúið mál. Við höfum verið að vinna með það í þessu frumvarpi þegar sóttvarnalæknir tekur ákvörðun um að setja einstaklinga í sóttkví. Vegna samkomubanns eru að verða miklar skerðingar á samfélaginu. Vegna þessa samkomubann verður áskorun fyrir menntakerfið og félagsþjónustuna að sinna lögboðnum verkefnum. Þess vegna ríður á að sveitarfélögunum takist að byggja upp í þessari viku og næstu skólastarf sem tryggi það að börn geti mætt í skólana að sem mestu leyti. Síðan er breytilegt á milli sveitarfélaga hvernig það tekst en það er ekki ákvörðun sóttvarnalæknis að þessi börn mæti ekki í skóla eða leikskóla. Það er ákvörðun sóttvarnalæknis að það eigi að takmarka með hvaða hætti skólahald fer fram. Það verður áskorun fyrir okkur hér og fyrir sveitarfélögin að halda þessu starfi úti. Það verður líka áskorun gagnvart börnum með fatlanir og öðrum að halda úti lögboðinni þjónustu. Við tökum einmitt höndum saman núna við sveitarfélögin, bæði menntamálaráðherra um helgina og svo við núna, félagsmálaráðuneytið, við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna þess að við ætlum ekki að gefa út þá línu á þessu stigi að lögboðinni þjónustu verði hætt, að lögboðinni þjónustu, hvort sem er menntun eða þjónusta við fatlað fólk eða aðra einstaklinga, verði hætt og að ríkið ætli að viðurkenna að við náum ekki að halda úti þessari lögboðnu þjónustu.

Við ætlum frekar að reyna að taka höndum saman næstu daga og vikur til að tryggja að við getum veitt lögboðna þjónustu þrátt fyrir þær takmarkanir sem eru að verða á íslensku samfélagi. Þess vegna segi ég að við eigum ekki á þessu stigi að segja að við ætlum að gefast upp fyrir því og borga öllum foreldrum fyrir að vera með börnin sín heima, sama hvort þau eru með einhverjar sérþarfir eða bara börn í skóla. Við ætlum frekar að reyna að styðja við sveitarfélögin svo þau nái að sinna þessari lögboðnu þjónustu.

Þetta getur samt allt saman breyst, þetta getur breyst á einum sólarhring, þetta getur breyst á einni viku þannig að við þurfum að vera með þetta góða samtal í gangi á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins og ekki hvað síst á milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa ákveðinni lögboðinni þjónustu að gegna, ríki hefur ákveðinni lögboðinni þjónustu að gegna og við þessar fordæmalausu aðstæður verðum við einfaldlega að fella niður múrana þarna á milli og vinna sameiginlega að því að veita þá þjónustu sem samfélagið þarf á að halda.

Allar ábendingarnar og vangavelturnar sem hv. þingmaður var með í ræðunni voru mjög góðar. Maður er sjálfur stundum svolítið ringlaður á því hvernig eigi að nálgast málið og ég held að við séum það öll.

Síðan vil ég bara segja að ég vænti góðs samstarfs við velferðarnefnd í því að vinna þetta mál áfram og hvet nefndina til að vinna það líka í góðu samstarfi við sóttvarnalækni og heilbrigðisyfirvöld vegna þess að það sem í rauninni virkjar ákvæði frumvarpsins eru ákvarðanir sóttvarnalæknis hverju sinni.

Eins og ég segi þakka ég fyrir þessa umræðu og vænti góðs samstarfs við velferðarnefnd og hv. þingmann.