150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir andsvarið. Ég held að það sé full þörf á því að rifja hér upp hvernig staðið hefur verið að þessum málum frá upphafi. Ég rakti það ítarlega að hvað kröfugerð ríkisins varðar hefur hún öll verið úr hófi fram og engan veginn með þeim hætti sem lagt var upp með. Þingmenn og ráðherrar vissu af þessu, voru kallaðir á fundi víða um land þar sem bent var á þá hluti og þeir viðurkenndu að ekki væri farið í þá vegferð sem upphaflega hefði verið ætlast til og að því yrði að breyta. Hins vegar var ekkert gert í þeim efnum.

Það er nauðsynlegt, hv. þingmaður, að rifja þetta upp hér vegna þess að nú á að halda þessum málum áfram. Nú á að snúa sér að sjávarjörðunum eins og ég nefndi réttilega. Við hv. þingmenn höfum ekki séð kröfugerðina sem þá verður lögð fram af hálfu ríkisins. Það er viðbúið, í ljósi þess sem hefur verið viðhaft hvað þetta mál varðar, að hún verði úr hófi fram. Ég óttast það mjög. Ég held að það sé rétt að því sé komið á framfæri að það er verið að halda áfram vegferð sem hefur því miður verið á allt annan veg en lagt var af stað með í upphafi. Því miður, ágæti þingmaður, ber Sjálfstæðisflokkurinn töluvert mikla ábyrgð á þessu máli sem ég rakti einnig hér. Ég hefði svo sannarlega viljað sjá að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi til móts við þá gagnrýni sem hann hefur þurft að sæta hvað þetta varðar með því t.d. að falla frá þessu máli. Það er bara ósköp einfalt í okkar huga. (Forseti hringir.) Miðflokksmenn eru á því að landeigendur og þeir sem hlut eiga að máli væru mun betur settir með að þetta frumvarp yrði ekki að lögum.