150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Næsti fundur í allsherjar- og menntamálanefnd verður áhugaverður hvað þetta atriði varðar. Það hvarflar ekki að þeim sem hér stendur að það sé mælikvarði á það hvort á sjónarmið sé hlustað að öll sjónarmið viðkomandi nái í gegn og komist til endanlegrar afgreiðslu. Það er auðvitað ekki þannig, það vitum við öll sem hér störfum. En það er alveg æpandi skýrt í þessu máli að engin af sjónarmiðum landeiganda, sem eru einfaldlega sá hópur sem fyrir þessu verður, náðu í gegn, engin. Það er það sem ég ítreka, og hef ekki breytt um skoðun á, að mér virðist blasa við að töluverður aðstöðumunur hafi verið, ég ætla að leyfa mér að kalla það því nafni, hvað það varðar að aðilar beggja megin borðsins hefðu möguleika á að njóta skilnings nefndarinnar. Það má vel vera að það sé út af samkomulagi, skulum við kalla það, sem stjórnarflokkarnir hafa náð. En það að málið sé tekið inn hér í dag til lokaumræðu undirstrikar í mínum huga mest af öllu hversu illa hluta stjórnarflokkanna virðist líða með málið. Fulltrúar þeirra flokka verða auðvitað að eiga það við sjálfa sig og sína kjósendur, ég ber ekki ábyrgð á því. En það er mjög skrýtið að standa hér og ræða þetta mál, sem er í eðli sínu umdeilt, á tíma þar sem stjórnarflokkarnir biðja um gott veður gagnvart öllu því sem þeim kemur til hugar.