150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan að með því að taka málið inn til umræðu milli 2. og 3. umr. var nefndin að búa sér til pláss og tækifæri til að taka málið fyrir, þess vegna í heild eða einstaka hluta þess eftir því sem nefndarmenn vildu. Það var reyndar ágætur tími frá því að málið var rætt við 2. umr. og þar til það var tekið til meðferðar í nefndinni — ég man ekki hvað það var, hvort það voru tíu dagar sem liðu þar á milli og síðan aftur vika frá nefndarfundinum og þar til við tökum þetta nú til 3. umr. Það var því verið, má segja, að hægja á málsmeðferðinni þannig að menn gætu þó komið að einhverjum sjónarmiðum og athugasemdum og áttað sig betur á því hvað fælist í málinu. Þegar málið var rætt hér við 2. umr. voru enn uppi alls konar sjónarmið um að frumvarpið fæli í sér einhverja efnislega breytingu, eignarréttarskerðingu, stjórnarskrárbrot, og ég veit ekki hvað og hvað menn sögðu í 2. umr.

Nefndin sagði bara: Allt í lagi, við skulum skoða þetta betur. Við skulum fara aðeins betur yfir þetta og átta okkur á því og ef einhverjir vilja koma með athugasemdir til nefndarinnar þá er það auðvitað hægt, bara eins og hlutirnir ganga fyrir sig. Það á sér enga stoð í raunveruleikana að reynt hafi verið að lauma einhverju í gegn eða keyra eitthvað í gegn. Og þegar frumvarpið er skoðað, og þegar það er skoðað aftur og aftur, er ljóst að það felur það ekki í sér að verið sé að breyta eignarréttarlegri stöðu eins eða neins með neinum hætti. Það felur það ekki í sér. Það felur í sér breytingu á málsmeðferðarreglum og ef menn eru ósáttir við það þá er rétt að það komi fram. En menn eiga ekki að láta eins og það sé eitthvað miklu meira í þessu en raun ber vitni.