150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Það er eitt sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um og það snýr að atriði sem ég kom inn á í ræðu við 1. umr. og óskaði eftir því að nefndin skoðaði sérstaklega. Síðan veit ég að þingmaður Miðflokksins í nefndinni tók þessa spurningu upp þar og óskaði undir lokin eftir skriflegu svari sem hefur ekki borist. Ég er ekki fulltrúi í nefndinni og heyrði ekki umræðurnar sem þar áttu sér stað en atriðið snýr að því að starfsmaður fyrirtækis fer í lækkað starfshlutfall, segjum 50%, og er í því yfir þann tíma sem þessi lausn stendur til boða, hvort sem það verður sá tímarammi sem er rammaður inn núna eða hvort framlenging kemur til. Hver er staða starfsmanns sem fer í lækkað starfshlutfall en lendir síðan í uppsögn, sem sagt lengri tíma atvinnuleysi? Ég sé ekki tekið á þessu í nefndarálitinu og það væri áhugavert að heyra hvort nefndin meti það sem svo að réttindi þessa starfsmanns miði þá við hið lækkaða starfshlutfall sem hann fer í í tengslum við þetta frumvarp eða hvort miðað sé við upphaflega starfshlutfallið sem hann var í áður en til lausnarinnar kom.