150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar. Það er ákaflega mikilvægt að þessir hlutir gangi allir snurðulaust fyrir sig og ég efast ekki um að starfsmenn Vinnumálastofnunar komi til með að gera sitt allra besta. Hins vegar megum við ekki hafa neina hnökra í regluverkinu sem geta tafið afgreiðslu þessara mála. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega mun mjög stór hópur koma til með að nýta sér þessi úrræði. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að upplýsa hér að vel hafi verið farið yfir þetta og að starfsmenn Vinnumálastofnunar séu allir af vilja gerðir í þessum efnum.

Ég ítreka það sem ég sagði, herra forseti, við megum ekki gleyma þeim hópi sem er nú þegar á atvinnuleysisskrá og hefur lengi verið að leita sér að atvinnu. Ég fagna því að hv. þingmaður og (Forseti hringir.) formaður velferðarnefndar skuli hugsa á þann veg að við verðum að bregðast við þessu og fara þá leið sem við fórum í efnahagshruninu, að lengja það tímabil sem hægt er að vera á atvinnuleysisskrá.