150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall). Þetta mál höfum við verið með í þessari viku í velferðarnefnd og ég verð að segja alveg eins og er að samstarfið í nefndinni hefur verið til fyrirmyndar. Við höfum lagt okkur virkilega fram um að leysa þau mál sem hafa komið upp og ég tel að við höfum gert það eins vel og okkur er mögulega unnt. Þá hefur ekki skipt neinu máli hvort það er stjórn eða stjórnarandstaða, allir hafa verið tilbúnir að leysa málin á farsælan hátt. Þessi vinnubrögð eru algjörlega til fyrirmyndar og ég vona heitt og innilega, og ég held að ég geti bara trúað því, að við munum vinna á svipaðan hátt í málunum fram undan.

Í þessu máli hefur komið fram og er mjög mikilvægt að það er búið að setja lágmarksgreiðslu upp á 400.000 kr. Enginn fær minna en það. Síðan er hámarkið 700.000 kr. og þá verður skerðingarhlutfall bratt upp úr því. Það er verið að reyna að tryggja að sérstaklega þeir sem eru á lægstu launum og í millitekjuhópnum verði fyrir sem minnstu höggi.

Í þessu samhengi má líka benda á að þetta frumvarp er ekki fullkomið og verður það aldrei. Hópar munu detta á milli og við erum meðvituð um það. Þess vegna er það líka á hreinu að gildistíminn er stuttur, fram til 1. júní. Á því tímabili verður örugglega fylgst með því hvort gera þurfi bragarbót á frumvarpinu til að grípa einhverja sem hafa dottið þar á milli, hafa ekki fengið þá leiðréttingu og hjálp sem frumvarpið á að veita.

Bent hefur verið á eina mikilvæga spurningu sem ég vona að ráðherra og verkalýðshreyfingin geti svarað. Það er mjög alvarlegt mál sem ég hef heyrt um og ég trúi ekki að sé rétt. Það er í sambandi við VIRK Starfsendurhæfingarsjóð, að það sé verið að útskrifa fólk með hraði úr þeirri endurhæfingu. Þetta eru einstaklingar sem eru þarna inni vegna veikinda. Ég trúi þessu ekki því að ef þetta fólk er útskrifað með hraði í því ástandi sem núna er á það engan rétt í atvinnuleysiskerfinu. Um leið og það fer út úr VIRK Starfsendurhæfingarsjóðnum er það komið á þann stað að það hefur engar tekjur. Er þá verið að vísa þessu fólki á félagsbætur? Ég trúi því ekki, heldur vil ég trúa og treysta að verkalýðshreyfingin og þeir sem stjórna VIRK taki tillit til þeirra aðstæðna sem nú eru uppi. Ef þetta er rétt og ef þarna er eitthvað undir kemst það ekki fyrir í þessu frumvarpi en þá er engin hætta á öðru en að tekið verði á því. Annað er ekki hægt.

Ég bendi líka á að með frumvarpinu er verið að hjálpa ákveðnum hópi fólks á vinnumarkaði. Fólk getur farið niður í allt að 25% starfshlutfall sem skiptir rosalega miklu máli. Við verðum að átta okkur á því að stór hópur fólks er í 50–60% starfshlutfalli. Ef einhver er í 45% starfshlutfalli og það minnkar um 20 prósentustig er hann inni, þá eru 25% eftir og viðkomandi er inni í þessu úrræði. Þeir sem eru í hlutastörfum, kannski í 60% starfshlutfalli og fara niður í 40%, eru inni í þessu frumvarpi og það verður tekið utan um þá. Þetta er mikilvægt vegna þess að sá hópur sem er oft í þessu litla starfshlutfalli er mjög viðkvæmur, hann er hópur sem getur kannski ekki unnið meira en 20–60%. Þeir sem eru í 20% starfshlutfalli eru því miður ekki inni en það er þegar komið af stað viðbragðsteymi sem er komið í vinnu til að taka á og hjálpa þeim sem eru í viðkvæmustu hópunum og til að kortleggja að allir sem þurfa á hjálp að halda fái hana.

Miðað við þá vinnu sem við lögðum í þetta og samstarfið í velferðarnefnd trúi ég því að við munum halda því samstarfi áfram, tryggja það og sjá til þess að þeir sem þurfa á hjálp að halda fái hana. Þeir þurfa bara að fylgjast með og leita þangað þegar þetta er komið af stað. Mér skilst að þessi nefnd sé tekin til starfa og örugglega koma einhverjar niðurstöður frá henni strax eftir helgi. Fólk getur farið að leita sér aðstoðar sem það þarf á að halda. Þess vegna er mjög mikilvægt að óttinn nái ekki tökum á fólki, að það leiti hjálpar og hlusti. Við verðum öll að hjálpast að og hjálpa þeim sem geta ekki einhverra hluta vegna komist á netið eða í síma til að leita sér hjálpar, að einhverjir fylgist með og aðstoði þá sem virkilega þurfa á að halda. Það eru margir boðnir og búnir til þess eins og hefur komið fram, fólk er að hjálpa, keyra út vörur og annað, sem mér líst vel á, eins og staðan er í dag. Við munum hjálpast að og við munum komast í gegnum þetta. Þetta er eitt af fyrstu frumvörpunum til að koma hlutunum í lag og ég trúi því og treysti að mörg fleiri frumvörp muni koma inn í þeim tilgangi að hjálpa og við munum standa saman að þeim.