150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[13:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að lofa þetta frumvarp og sérstaklega þær breytingar sem voru gerðar á því. Samt eru vissulega nokkur atriði sem má gera athugasemdir við. Til að byrja með eru ekki margar upplýsingar á bak við það af hverju hinir og þessir þröskuldar eru valdir. Ef t.d. reglan um 20 prósentustig væri tekin alveg burtu má spyrja hvaða hópar sem hún myndi ekki ná utan um yrðu varðir fyrir því að þurfa að skera niður starfshlutfall. Núna er 25% starfshlutfallsgólf. Fyrra starfshlutfall má lækka um 20 prósentustig hið minnsta sem þýðir að hver sá sem er í minna en 45% starfshlutfalli getur ekki nýtt sér úrræðið. Þá gæti maður ímyndað sér hóp fólks sem er í nokkrum hlutavinnum en gæti ekki nýtt sér úrræðið. Það kom fram í umræðunum að það er ekki lagt saman eins og fyrst var rætt um heldur skiptir máli í hvaða einstaka starfi maður er og hversu hátt starfshlutfallið er í hverju starfi en ekki samanlagt starfshlutfall. Það er möguleiki á því að þarna sé hópur sem er í nokkrum hlutavinnum en gæti ekki nýtt sér þetta úrræði. Hvort það kemur niður á þeim eða ekki er síðan annað mál. Það þarf ekkert endilega að vera. En það er gott að hafa þetta í huga.

Ég sé þetta frumvarp eins og skyndilausn eða bráðahjálp. Þetta er mjög viðamikið viðbragð sem nær til flestra hópa, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason sagði, en það gæti verið að hópar yrðu út undan. Það er ekki sýnt fram á það með gögnum að enginn sé í þeim hópum. Það gæti verið en það gæti líka verið að svo væri ekki. Það er alveg hægt að segja að þetta sé allt í lagi, að þetta sleppi svona, en við skulum þó fylgjast með þeim stöðum þar sem einhver gæti fallið milli skips og bryggju varðandi þessa lausn. Það er gott að hafa það í huga.

Punktarnir blandast svolítið saman hjá mér um þetta mál og málið sem er til umfjöllunar á eftir, ég er að reyna að feta á milli þeirra og tengingarinnar við málið um sóttkví sem er mjög fínt og með fínar breytingar líka og útskýringar. Mig langaði til að minna sérstaklega á að í þessu frumvarpi er möguleiki að einhverjir geti fallið á milli og stjórnvöld þurfa að vera vakandi fyrir þeim hópum og bregðast við. Þingið og velferðarnefnd eru boðin og búin að bregðast við þeim götum sem er mögulega að finna í frumvarpinu en þau eru engin augljós. Það er möguleiki á þeim á nokkrum stöðum.

Mig langar að gera sömu athugasemd og hv. þm. Vilhjálmur Árnason gerði í ræðu áðan þegar hann sagði að við gætum aldrei náð utan um alla hópa. Við verðum samt eiginlega að gera það, sérstaklega þá hópa sem falla undir markmiðið með þessu frumvarpi sem er að ná til þeirra sem eru verst staddir. Okkar hlutverk er að reyna að ná a.m.k. utan um alla þá hópa, ekkert endilega umfram þá sem lögin ná utan um núna. Mörkin eru samt rýmkuð, það er farið upp í 700.000 kr. og gefið 400.000 kr. gólf. Þegar maður fer yfir bæði frumvarpið og breytingartillögurnar sér maður að það er verið að reyna að stilla ýmis atriði fram og til baka. Þegar allt kemur til alls, ef maður hugsar aðeins til framtíðar, væri mjög gott ef þetta væri aðeins einfaldara og þá hugsar maður sjálfkrafa um skilyrðislausa grunnframfærslu. Það væri miklu einfaldara ef hún væri bara skilgreind. Þá værum við ekki með svona undanþágur hér og sérstakar áherslur þar. Það væri áhugavert að skoða það í framtíðinni, enda var því máli vísað til framtíðarnefndar. Það væri ágætt að fara að sjá einhverjar niðurstöður þar og vinnslu á málinu.

Eins og ég talaði um við hæstv. menntamálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á þriðjudaginn erum við með tiltölulega nýlega reynslu af efnahagshruni sem þetta frumvarp er viðbragð við. Við sjáum fram á að afleiðingarnar af því hruni lentu að lokum á heimilum landsins, ekki bara íbúðareigendum heldur líka leigjendum og námsmönnum sem voru með lán eða leigu sem var vísitölubundin. Aðeins einn af þeim hópum fékk einhvers konar leiðréttingu á þeim mistökum sem bankarnir gerðu þegar þeir bjuggu til bólu og þau leiðindi öll. Ég myndi vilja sjá framtíðaraðgerðir til að koma til móts við þann skaða sem við munum óhjákvæmilega sjá að öllu óbreyttu. Þetta er vissulega plástur til næstu vikna, frumvarpið nær til loka maí, líklega með áformum um framlengingu eða að þá verði komnar aðrar almennar lausnir eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna. Þetta er ákveðinn gálgafrestur fyrir þingið og fyrir ríkisstjórnina, úrræði til að ná að grípa a.m.k. það alvarlegasta.

Fram undan er sviðsmynd sem nær til miklu lengri tíma. Þó að við náum að hrista af okkur þetta tímabil þar sem sóttkví og þess háttar er í gangi kemur samt tímabil þar á eftir sem verður áhugavert, ekki endilega í jákvæðri merkingu þess orðs, að glíma við. Þar myndi ég vilja sjá að ekki myndu sömu hóparnir missa af aftur. Í þeim breytingum sem gerðar eru núna er einmitt jákvætt að réttindi námsmanna í hlutastarfi með námi eða jafnvel fullu starfi eru tryggð líka.

Þegar á heildina er litið er þetta mjög jákvæð fyrsta aðgerð til að grípa alvarlegustu vandamálin sem eru fyrirsjáanleg á næstu vikum. Þetta er fyrsta skref og tvímælalaust þarf að grípa til fleiri aðgerða. Við heyrum óljóst um risapakka sem ríkisstjórnin áformar að koma með. Ég hlakka til að sjá til hvers konar úrræða verður gripið í þeim pakka. Maður heyrir t.d. að í umhverfis- og samgöngunefnd er mikið verið að spyrjast fyrir um hvaða verkefni liggja tilbúin ef til væri fjármagn, hverjum þeirra væri hægt að flýta til að hafa ákveðnar framkvæmdir í gangi, til að við lendum ekki í framkvæmdakreppu eins og við lentum í í hruninu. Fólk virðist vera að nýta sér þá reynslu sem við erum nýbúin að koma okkur úr.

Vissulega komumst við tiltölulega hratt út úr síðasta hruni en ég hef pínulitlar áhyggjur af því að enn glímir þó nokkur hluti fólks við afleiðingarnar af því. Það missti húsnæði sitt og er enn að grafa sig upp úr skuldum, er í leigugildrunni sem slíkri, leiguverð er gríðarlega hátt og fólk væri ekki þar ef ekki hefðu verið misgáfuleg og misgóð úrræði fyrir mismunandi hópa í kjölfar síðasta hruns. Það skiptir rosalega miklu máli fyrir okkur að horfa til þess að ekki séu glufur í þeim aðgerðum sem við erum að grípa til núna af því að þær voru tvímælalaust stórar síðast og þess vegna varar maður við þeim núna. Úrræðið sem við erum að ræða hérna er með mögulegum glufum þannig að ég hvet einfaldlega stjórnvöld til að fylgjast mjög vel með þeirri tölfræði sem kemur út úr notkun á þessu úrræði, fylgjast sérstaklega með því hvort einhverjir hópar geti ekki nýtt sér úrræðið sem kemur þá niður á atvinnu þeirra eða möguleikum til tekjuöflunar og grípa þá hópa. Ég efast ekki um að þingið verður boðið og búið að hlaupa undir bagga og koma með skjót úrræði til að loka slíkum gjám. Það er ekkert augljóst, það eru engin gögn sem fylgja með þessu frumvarpi sem segja að þessir hópar séu til staðar. Ef 20 prósentustiga reglan væri t.d. fjarlægð gæti það þýtt að aðrir hópar og fleiri, t.d. þeir sem þyrftu ekki nauðsynlega á úrræðinu að halda, myndu nýta sér það. Það myndi kosta miklu meira. Það er ýmislegt flókið við þetta og væri kannski ekki góð hugmynd út frá kostnaði því að kostnaðurinn lendir að lokum á okkur öllum, í lánum sem við þurfum síðan að borga til baka og erum ekki með einhver stöðugleikaframlög sem koma sjálfkrafa þegar búið er að gera þau upp. Hver sem upphæðin verður eru slík framlög ekki til í þessu tilviki.

Ég segi við stjórnvöld: Vinsamlegast fylgist með þeim hópum sem nýta ekki þessi úrræði og bregðist hratt við til að koma í veg fyrir áföll fyrir þá aðila.