150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[14:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. velferðarnefnd fyrir góða vinnu í þessu máli undir stjórn formanns. Það er til fyrirmyndar hvernig þau tvö mál sem við erum að tala um í dag hafa verið unnin og afar gleðilegt að við skulum ná að leysa úr eins flóknum verkefnum og hér er um að ræða á þennan hátt á svo stuttum tíma. Það er sannarlega til fyrirmyndar og vonandi merki um það sem verður í þeim málum sem við þurfum óhjákvæmilega að vinna í tengslum við þann faraldur sem nú geisar.

Þær breytingartillögur sem eru fluttar eru allar til batnaðar. Sumar þeirra var nánast fyrirséð við flutning málsins að þyrftu að koma til, aðrar komu fram í vinnu nefndarinnar. Raunar hefur ítrekað komið fram hjá stjórnvöldum undanfarna daga að vegna þess hversu hratt staðan breytist kunni það að verða í mjög mörgum málum sem við flytjum hér að þau verði næstum orðin úrelt, a.m.k. ekki eins nákvæm og hnitmiðuð og þau þyrftu að vera, jafnvel þegar þau koma til afgreiðslu. Í ástandi eins og þessu sem við erum í núna er aldrei hægt að sjá alla hluti fyrir. Það er aldrei hægt að taka utan um alveg alla þætti en eins og ræðumenn hafa komið að á undan mér er vinna í gangi í félagsmálaráðuneytinu til að reyna eftir fremsta megni að grípa þá aðila sem kynnu einhverra hluta vegna að bera skarðan hlut frá borði vegna þessara fordæmalausu aðstæðna.

Ég held hins vegar að ekki sé hægt að draga fjöður yfir það að auðvitað mun allt samfélagið að einhverju leyti þurfa að bera byrðar og jafnvel lenda í einhvers konar erfiðleikum vegna þessa máls. Byrðarnar verða þó léttari ef fleiri koma að því að bera þær.

Mig langar að hnykkja á því sem er kannski einna mikilvægast í breytingunum, atriðum sem snúa að umönnun barna en þó sérstaklega að umönnun þeirra barna og ungmenna sem þurfa að sækja þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þetta er afar viðkvæmur hópur og gríðarlega mikilvægt að nefndin skuli hafa fengið ábendingar utan úr samfélaginu um að bregðast við stöðu hans en jafnframt að nefndin skuli í fullri samstöðu taka ákvörðun um að breyta þessum ákvæðum frumvarpsins.

Í öðru lagi var í vinnu nefndarinnar komið töluvert inn á stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga, einyrkja sem oft og tíðum eru í þannig starfi að verkefni falla niður um þessar mundir, m.a. vegna óvilja margra til að vera úti á meðal fólks, annars vegar vegna samkomubannsins en hins vegar vegna sinnar persónulegu stöðu. Því er mjög mikilvægt að tekið sé betur utan um réttindi þessa fólks í þeim breytingartillögum sem nefndin flytur. Þetta er mikilvægt og ég taldi rétt, herra forseti, að koma þeim skilaboðum á framfæri. Enn og aftur flyt ég hv. velferðarnefnd kærar þakkir sem og starfsfólki þingsins sem hefur unnið gott verk við að koma málinu hingað.