150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

samningar við hjúkrunarfræðinga.

[11:14]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til að beita sér fyrir því að það verði einfaldlega samið við þessa lykilstétt. Ég ítreka að það er einmitt samningafundur á morgun. Þess vegna er mjög ríkt tilefni til að ræða þetta ekki einu sinni í þessum þingsal heldur tvisvar, en hv. þm. Jón Þór Ólafsson gerði það sömuleiðis í sinni fyrirspurn. Þetta ástand sem við búum við, þetta fordæmalausa ástand, sýnir hvað þessar stéttir skipta okkur miklu máli, skólafólk og heilbrigðisstarfsfólk. Við sjáum að hjúkrunarfræðingar hafa nú þegar svarað þessu kalli, meira að segja þeir hjúkrunarfræðingar sem hafa ekki starfað lengi inni á heilbrigðisstofnunum, eru jafnvel farnir á eftirlaun, hafa skráð sig í bakvarðasveit heilbrigðisstofnana. Hjúkrunarfræðingar hafa svarað okkar kalli og nú þurfum við að svara þeirra kalli.

Mig langar að spyrja að lokum hæstv. ráðherra hvort hún muni ekki bara beita sér fyrir því að þessi stétt fái kjarasamning heldur hvort hún muni jafnvel beita sér fyrir því að þessi stétt fái álagsgreiðslur vegna þeirrar stöðu sem hún býr við í því neyðarástandi sem þjóðin býr við.