150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Miðflokkurinn fagnar öllum efnahagsaðgerðum sem eru til þess fallnar að bæta stöðu fólks og fyrirtækja í þeim fordæmalausu aðstæðum sem við erum komin í vegna Covid-19 farsóttarinnar. Mikilvægt er að bregðast hratt við og að við göngum samhent til verka í því að lágmarka það efnahagstjón sem við okkur blasir. Miðflokkurinn hefur lagt fram sérstakar tillögur í þessum efnum og ég vona að ríkisstjórnin nýti sér þær. Ég kem nánar inn á þær á eftir í máli mínu.

Áður en ég fer í einstök efnisatriði frumvarpsins vildi ég nefna sérstaklega að ráðgjafarfyrirtækið McKinsey birti í síðustu viku nýja greiningu og sviðsmyndir hvað varðar efnahagslegan samdrátt vegna Covid-19 veirunnar. Fyrri sviðsmyndin gerir ráð fyrir skammtímaáhrifum á þann veg að fyrir lönd sem treysta á ferðaþjónustu sem eina af arðbærustu stoðunum undir sínu efnahagskerfi sæju ekki fram á efnahagslegan bata fyrr en í fyrsta lagi einhvern tímann á næsta ári. Margt bendir til að þetta geti verið raunin og við þurfum að vera undir það búin. Hin sviðsmyndin gerir ráð fyrir langvarandi samdrætti, að veiran haldi áfram að dreifast út árið 2020, áhrifin á efnahagskerfi heimsins yrðu grafalvarleg og svipuð og í fjármálakreppunni 2008–2009. Landsframleiðsla í flestum ríkjum myndi dragast verulega saman og efnahagsbatinn ekki hefjast fyrr en um mitt ár 2021. Sumir sérfræðingar telja að það sem sé fram undan sé engu minna en í heimskreppunni 1929. Við vonum að sjálfsögðu að svo verði ekki og veiran hverfi jafnskjótt og hún birtist. Eitt er víst, óvissan er mikil og við getum ekkert sagt til um það hvenær farsóttin gengur niður og hversu hratt efnahagskerfin ná sér á strik á nýjan leik.

Við erum ekki bara að tala um ferðaþjónustuna um heim allan heldur framboð og eftirspurn í framleiðslu almennt. Seðlabankastjóri telur að það muni taka ferðaþjónustuna 6–12 mánuði að hefjast handa við sókn að nýju. Við vitum því miður lítið hvenær sá tímapunktur getur hafist. Við vitum ekkert um það hversu lengi takmarkanir á ferðalögum verða í gildi eða aðrar takmarkanir á samkomuhaldi almennt. Það er ekki bara ferðaþjónustan, sem er orðin okkar mikilvægasta atvinnugrein, sem er verulega löskuð vegna þessa heldur hefur sjávarútvegurinn orðið fyrir miklu höggi. Sala á ferskum fiski hefur stöðvast. Á síðasta ári seldum við ferskan fisk á erlenda markaði fyrir 80 milljarða kr. Auk þess má ekki gleyma loðnubrestinum sem er einnig mikill tekjumissir.

Því verður að styðja við atvinnulífið með öllum tiltækum ráðum. Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar er mikilvægt skref. Það er ekki stærsta efnahagsaðgerð sögunnar eins og forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt, en við í Miðflokknum fögnum öllum aðgerðum til hagsbóta fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu en hefðum viljað ganga lengra í þessum efnum. Þar má nefna tryggingagjaldið sem dæmi og fleiri þætti. Það er ekki nægilegt fyrir fyrirtækin að geta frestað greiðslum þegar engar tekjur koma í kassann. Það þarf að fella tryggingagjaldið niður fram að áramótum hið minnsta.

Helstu úrræði ríkisstjórnarinnar snúa að því að fresta helmingi af staðgreiðslu opinberra gjalda um mánuð og síðan frumvarpi um Atvinnuleysistryggingasjóð og aðkomu hans að hlutastörfum. Það er mjög mikilvægt að fólk sem þarf að minnka starfshlutfall sitt fái atvinnuleysisbætur í samræmi við skert starfshlutfall til að bæta því tekjumissinn. Miðflokkurinn fagnar þessu úrræði sem tók mikilvægum breytingum í þinginu en minnir á að það nýtist ekki þeim fyrirtækjum sem eru tekjulaus. Það þarf að halda fyrirtækjunum á lífi og að sem flestir haldi sínum störfum. Allir verða að hafa í sig og á. Það þarf einnig að mæta þeim sem voru atvinnulausir fyrir farsóttina, voru jafnvel að detta út af bótum. Tímabilið á atvinnuleysisskrá þarf að lengja eins og gert var í hruninu.

Komið hefur fram hjá ríkisstjórninni að aðgerðapakki hennar vegna efnahagslegra áhrifa farsóttarinnar sé metinn á 230 milljarða kr. Inni í þessari tölu er ýmislegt sem kemur ekki beint úr ríkiskassanum eins og lánafyrirgreiðsla bankanna, frestun á greiðslu opinberra gjalda og úrræði við töku séreignarsparnaðar. Það að ríkisstjórnin skuli setja þetta fram með þessum hætti er engum til gagns og til þess fallið að valda almenningi vonbrigðum í ástandi þar sem margir eru kvíðnir. Á þriggja ára tímabili eru þetta alls tæpir 60 milljarðar kr.

Ég fagna átakinu Allir vinna. Full endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu við nýbyggingar og viðhald fasteigna er mikilvægt skref og hefur áður gefið góða raun. Barnabótaaukinn er að sjálfsögðu jákvæður svo langt sem hann nær. Upphæðin hefði þó mátt vera hærri. Það þarf að fylgjast vel með til hvaða ráðstafana aðrar þjóðir grípa. Við þurfum að vera óhrædd við að finna nýjar lausnir. Í bandaríska blaðinu New York Times var t.d. athyglisverð grein fyrir skömmu byggð á samtölum við þekkta sérfræðinga sem hafa komið að lausn efnahagsáfalla. Ein af þeim lausnum sem þar voru nefndar var lánafyrirgreiðsla til allra fyrirtækja, stórra og smárra, jafnt sem einyrkja. Hún gengur út á að vaxtalaus lán yrðu veitt til allt að fimm ára eftir að farsóttinni lýkur. Lánveitingin yrði háð þeim skilyrðum að 90% starfsmanna haldi vinnunni. Það er svo sannarlega til mikils að vinna að fólk haldi starfinu og ekki má gleyma þeim sem þegar hafa misst vinnuna eins og ég nefndi. Ríkisvaldið verður að halda vel utan um þann hóp sem fer því miður ört stækkandi. Eins og ég segi er brýnt að lengja það tímabil sem hægt er að vera á bótum.

Miðflokkurinn leggur til svipaða leið og ég rakti hér um lánafyrirgreiðslu til fyrirtækja, þ.e. að ríkið veiti beinan fjárhagsstuðning til fyrirtækja í hlutfalli við þann fjölda starfsmanna sem halda vinnu. Ríkisábyrgð á lánum til fyrirtækja, svokölluð brúarlán eins og fjallað er um í 12. og 13. gr. frumvarpsins, er skref í rétta átt. Þetta úrræði er hins vegar of flókið í framkvæmd og gæti þar með komið of seint. Þar skiptir máli að þessi lán þjóni þeim tilgangi sem þeim er ætlað og að gegnsæi ríki í lánveitingum, ekki síst í ljósi þess að áhætta ríkissjóðs er töluverð og það eru skattgreiðendur sem eru að fara að lána fyrirtækjum í vanda. Því má ekki gleyma.

Í frumvarpinu er ekkert minnst á landbúnaðinn og eru það mikil vonbrigði vegna þess að nú þegar farsóttin hristir upp í öllum stoðum samfélagsins sannast það einu sinni enn hversu mikilvæg innlend matvælaframleiðsla og matvælaöryggi er þjóðinni. Viðbúið er að innflutt matvæli hækki í verði á komandi vikum og hefur fjármálaráðherra komið sérstaklega inn á það. Vonandi læra þeir af þessu sem hafa hrópað hvað hæst um að draga eigi úr stuðningi við íslenskan landbúnað og flytja sem mest inn af matvælum. Miðflokkurinn leggur áherslu á að sérstaklega verði stutt við íslenska matvælaframleiðslu með greiðslum til bænda og starfsumhverfi greinarinnar endurskoðað nú þegar ríkjum leyfist að gera ráðstafanir til að verja eigin framleiðslu. Ég skora á ríkisstjórnina að styðja sérstaklega við bakið á bændum. Þeir eru þjóðinni ákaflega mikilvægir á erfiðum tímum sem þessum.

Ekkert er minnst á húsnæðislán landsmanna í frumvarpinu. Verði snöggar breytingar á gengi krónunnar til lækkunar og við fáum verðbólguskot er voðinn vís. Gengið hefur nú þegar látið undan á skömmum tíma. Mikilvægt er að einfalda regluverkið þegar kemur að endurfjármögnun húsnæðislána. Má þar nefna hvað varðar greiðslumatið heimildir til að flytja lán og lánsform til að gefa fólki kost á að nýta sér lækkandi vexti og draga úr greiðslubyrði, t.d. með því að geta skipt verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð á einfaldan hátt. Þetta er ein af níu tillögum sem Miðflokkurinn hefur lagt fram til að bregðast við þeim fordæmalausu aðstæðum sem við erum komin í. Ég hvet ríkisstjórnina til að huga vel að þessu. Auk þess þarf ríkisstjórnin að vera tilbúin að taka vísitölu neysluverðs úr sambandi þróist aðstæður mjög á verri veg þegar kemur að verðbólgu.

Gallinn við þessar tillögur, frú forseti, almennt, og ég vona að úr því verði bætt í störfum nefndarinnar, er að þær mættu ganga lengra og nauðsynlegt er að einfalda þær. Þær eru of flóknar að mínum dómi sem getur tafið framkvæmd þeirra og það er afar óheppilegt vegna þess að staðan breytist dag frá degi. Í raun og veru vitum við ekki hver staðan verður á morgun eða daginn þar á eftir. Við í Miðflokknum styðjum að sjálfsögðu þessar tillögur svo langt sem þær ná og munum koma með okkar hugmyndir í störfum nefndarinnar sem ég vona að horft verði til. Ég óska eftir góðu samstarfi í þeim efnum og ég held að allir séu af vilja gerðir að leysa þetta mál eins hratt og vel og hægt er.

Ég hvet enn og aftur ríkisstjórnarflokkana til að horfa með opnum hug til stjórnarandstöðunnar þegar kemur að málefnalegri gagnrýni á þessar tillögur og hlusta á það sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa og skoða öll mál í þessum efnum með það eitt í huga að við getum mætt þessum erfiðum kringumstæðum með myndarlegum hætti svo að allir þeir sem koma til með að eiga um sárt að binda vegna þessara fordæmalausu aðstæðna geti hugsað til þess að stjórnvöld, Alþingi, séu að vinna af heilindum í að lágmarka það tjón sem blasir við okkur.

Ég vil að lokum hvetja ríkisstjórnina til dáða, óska henni velfarnaðar í erfiðu verkefni og ég hvet hana til að nýta sér það sem við höfum lagt hér fram og það sem stjórnarandstaðan mun leggja til málanna í þessu mikilvæga máli.