150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[13:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að ég er svo sannarlega opinn fyrir því að horfa í kringum mig og hlusta eftir ábendingum og tillögum. Það er alltaf spurning hvernig best er að skapa slíkan vettvang. Það hefur ekki verið skortur á því að atvinnulífið hafi komið ábendingum til okkar. Þeim hefur rignt yfir okkur í raun og veru. Við höfum sömuleiðis verið að horfa til ábendinga frá alþjóðastofnunum og þær hafa verið þó nokkuð margar. Við erum komin með sæmilegt yfirlit nú þegar yfir skattalegar ráðstafanir flestra ríkja í kringum okkur, í sérstakri skýrslu, þannig að allt þetta höfum við verið að skoða. Ég held að vandinn við að ganga alla leið og skapa sérstakan vettvang fyrir þetta sé að tryggja að hann sé sveigjanlegur og skilvirkur en ekki of þunglamalegur. En ég held að á þessu stigi máls séum við í raun og veru að vinna í þessu samráði á fleiri en einum vettvangi, bæði hér í þinginu, í Stjórnarráðinu og annars staðar.