150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[13:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við sýndum það í velferðarnefnd að það er hægt að vinna saman og þar gekk mjög vel með þau tvö mál sem við afgreiddum hér síðast fyrir þingið og vonandi verður svoleiðis áfram. En mig langar að spyrja ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er í þessu frumvarpi 20.000 kr. greiðsla til þeirra sem eru með yfir 11 milljónir í árslaun? Hver er rökstuðningurinn fyrir þeim barnabótum? Hvers vegna er svona nauðsynlegt fyrir þá einstaklinga að fá þessar 20.000 kr.?

Síðan er annað sem mig langar líka að spyrja um og það er í sambandi við bankana, það er talað um 35 milljarða á bankana. En er það ekki á ríkið? Ríkið á bankana að stærstum hluta. Þetta eru 70 milljarðar á ríkið sjálft vegna þess að ríkið hlýtur að bera ábyrgð á þeim bönkum sem það á, þetta hlýtur að vera sami eigandinn.