150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að kvarta undan því að hafa meðbyr, það er bara gott að fá mikinn stuðning við það að ráðast í verkefni sem eru mannaflsfrek og örva eftirspurn. Varðandi verklegu framkvæmdirnar held ég að það sem bíði okkar helst sé að vera raunsæ í því hversu miklu er hægt að koma út. Við höfum verið í sérstöku átaki við að byggja Landspítala og okkur hefur ekki tekist að setja svona háa fjárhæð út á hverju ári. Við höfum verið meira að reyna að dansa í kringum 6 milljarðana.

Það er gríðarleg innspýting ef menn vilja meina að það sé bara ekkert mál að henda 30 milljörðum út á seinni átta, níu mánuðum ársins. Það er misskilningur. 15 milljarðar eru há fjárhæð. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að sjóðirnir séu mikilvægir enda erum við að efla sjóðina í þessari tillögu. Við erum að setja 400 milljónir í bæði grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir, en það er ekkert vit í því að setja þessa fjárhæð í samhengi við hallann eftir hrun. Hallinn núna er allt annað umræðuefni en þetta átak og mig myndi ekki að undra þó að hallinn færi í 200 milljarða. (Forseti hringir.) Það er augljóst að hann verður langt fyrir norðan 100, en hann gæti alveg orðið 200 og jafnvel meira en það þegar upp verður staðið á þessu ári. Það hefur ekkert að gera með það hvert fjárfestingarátakið er.