150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er væntanlega hugsað þannig, ef ég skil spurninguna rétt, að ónýttar fjárheimildir geti að einhverju marki fengist fluttar áfram ef verkefninu hefur ekki verið lokið. Í mörgum tilvikum erum við að ræða um verkefni sem munu þurfa að halda áfram. Við gerum beinlínis ráð fyrir að þau verði fjármögnuð í næstu fjármálaáætlun og komi inn í næstu fjárlög. Sum verkefnanna sem við erum að setja af stað með þessu átaki eru kannski tveggja, þriggja ára verkefni þannig að þau munu þurfa fjármagn á komandi árum.

Við höfum ekki fengið lista frá Vegagerðinni og spurt: Hversu miklu fé getið þið varið á þessu ári? og samþykkt það allt. Samt var farið yfir það sem væri sérstaklega mannaflsfrekt og væri raunhæft að ráðast í á þessu ári. Arðsemi skiptir líka máli. Það er það sem við vorum helst að leita að.