150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er, eins og ég rakti í máli mínu, tillaga sem á sér enga hliðstæðu. Hún er unnin við afar sérstakar aðstæður og í sjálfu sér er ekkert í lögum sem kveður á um að það kæmi fram þingsályktunartillaga eins og ég er að leggja hana fram hér. Einhver hefði sagt að þetta hefði átt að vera sérstakt lagafrumvarp. Sumt af því sem við ræðum um er líka í öðru þingskjali sem heitir samgönguáætlun hér í þinginu og er þar með röðun inn á einhver önnur ár, þannig að við erum í öllu tilliti í afar sérstöku umhverfi. En það var mín hugmynd að við myndum leggja þetta fram í sérstakri þingsályktunartillögu þannig að þingið hefði eðlilega aðkomu að því að raða verkefnunum saman og ákveða á endanum fjárhæðirnar í gegnum fjáraukalagafrumvarpið. Það finnst mér vera mjög lýðræðislegt þó að það kunni ekki að vera eftir ströngustu reglum laga um opinber fjármál sem mér finnst ekki eiga við í þessu tilviki.

Byggingarframkvæmdir geta verið með mörg kvennastörf, sérstaklega allt það sem snýr að hönnun og undirbúningi verka. Það eru alveg augljóslega t.d. í arkitektastéttinni á Íslandi ágætishlutföll karla og kvenna.