150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[14:03]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Engum dylst að íslenskt atvinnulíf er núna að ganga í gegnum fordæmalausa tíma og að mikið mun reyna á efnahagslega og félagslega innviði landsins. Samfylkingin styður að sjálfsögðu allar góðar hugmyndir og aðgerðir. Það er mikilvægt í þeim aðgerðum sem fram undan eru að við fókuserum fyrst og fremst á almenning og heimilin í landinu. Við þurfum að huga að þeim samhliða því að huga að fyrirtækjunum. Ég hef sérstakar áhyggjur af litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru auðvitað hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi. Ég er að tala um örfyrirtæki sem eru með frá einum til tíu starfsmenn. Við þurfum sérstaklega að huga að þessum aðilum sem eru að stórum hluta í ferðaþjónustu en líka í öðrum geirum íslensks atvinnulífs.

Fulltrúar ferðaþjónustunnar hafa komið á fund fjárlaganefndar og þeir hafa vægast sagt lýst stöðunni þannig að þeir séu að ganga í gegnum hamfarir. Áfallið nær langt út fyrir raðir ferðaþjónustunnar því að eftirspurn eftir annarri þjónustu í öðrum geirum atvinnulífsins hefur líka dregist mjög hratt saman. Það skiptir máli að vanda til verka og nota hugmyndafræði Keynes, að við notum ríkisfjármálin til að auka eftirspurn á meðan eftirspurn einkaaðila dregst saman. Við sjáum að ríkisstjórnin hefur kynnt 230 milljarða kr. aðgerðapakka en hann er hins vegar að stærstum hluta greiðslufrestir af opinberum gjöldum, ábyrgð á lánum eða úttekt fólks á eigin sparnaði, séreignarsparnaði. Gott og vel, ef við tökum það frá er hin raunverulega innspýting ríkissjóðs á þessum tímapunkti einungis um einn þriðji af þessum 230 milljörðum, 60–70 milljarðar.

Ráðherrar hafa sagt að þeir vilji gera meira en minna. Mér finnst það ekki vera í þingsályktunartillögunni sem við ræðum hér og ekki heldur í fjáraukalagafrumvarpinu sem við erum enn að ræða. Við getum gert meira. Allir eru sammála um það, allir flokkar og þjóðin kalla eftir frekari aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar og það er svo sannarlega þörf á því. Við sjáum ef við lítum bara á fjárfestingarhlutfallið að það er ekkert sérstaklega hátt, um 15 milljarðar. Fjárlög ríkisins eru 1.000 milljarðar þannig að 15 milljarðar til viðbótar á þessum tímapunkti eru um 1,5%. Í hvaða kokkabókum telst það vera mikil viðbótarinnspýting? Ég veit að hér er boðað að meira komi seinna en þörfin er núna og það er hægt að gera meira. Ég hef engar áhyggjur af því, eins og hæstv. fjármálaráðherra talaði um, að það þurfi að troða peningum út í atvinnulífið eða til verktaka. Það er ekki tilfellið. Núna eru til verkefni sem hægt er að ráðast í fyrir meira en 15 milljarða. Þetta veit ríkisstjórnin vegna þess að hún hefur fengið minnisblöð frá sveitarfélögunum um að hægt sé að ráðast í fleiri verkefni núna.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa forgangsraðað flýtingu framkvæmda á verkefnum sem m.a. er ekki að finna í þessari þingsályktunartillögu. Sömuleiðis sendu sveitarfélögin á Suðurnesjum aðgerðaáætlun upp á 13 blaðsíður um verkefni sem hægt væri að ráðast í. Sömu sögu mætti segja frá ýmsum stöðum úti á landi. Nú þurfa hjól atvinnulífsins sem hefur hægt allverulega á að fá innspýtingu frá hinu opinbera. Samtök iðnaðarins sem eru í nánum tengslum við félagsmenn sína hafa kallað eftir a.m.k. helmingi meiri innspýtingu en hér er þegar kemur að verklegum framkvæmdum. Við getum gert það. Það er röð aðgerða og fjárfestinga sem við getum ráðist í. Þess vegna hvatti ég hæstv. ráðherra til að nýta sér meðbyrinn sem er í þessum þingsal. Hann getur svo sannarlega fengið stuðning til að setja meiri fjármuni á þessum tímapunkti til að mæta högginu. Við höfum ítrekað sagt það, ég held allir þingmenn, að við erum saman í þessu. Leysum þetta saman. Hér eru framkvæmdir og sjóðir sem hægt er að efla strax.

Það er svo auðvelt að efla sjóði eins og Tækniþróunarsjóð sem er lykilsjóður atvinnulífsins. Hann er rúmir 2 milljarðar. Þetta er ekki stærri sjóður en það. Við sjáum að hægt væri að auka fjármuni í þann sjóð bara með einu pennastriki, ekki þyrfti að hanna eitt eða neitt, fá álit Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytisins eða neitt svoleiðis. Við getum einfaldlega ákveðið að efla þessa sjóði. Tækniþróunarsjóður á einungis að fá 400 milljónir í þessari þingsályktunartillögu. Það er ekki nóg. Það er meira að segja langt frá því að vera nóg. Tækniþróunarsjóður fær umsóknir frá fólki og fyrirtækjum en getur einungis veitt fjármuni til 27% þeirra verkefni sem fá hæstu einkunn. Þarna úti eru svo mörg verkefni sem uppfylla skilyrði sjóðsins sem eru ströng, en það er ekki nægilegt fjármagn til að styrkja.

Sömuleiðis hefur verið kallað eftir auknum peningum í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Það býr líka til störf, herra forseti, þannig að sjóðirnir eru gríðarlega auðveld leið fyrir okkur bara núna, seinna í dag liggur við, að setja meiri pening í til að stuðla að nýsköpun. Það er nýsköpun sem mun hjálpa okkur að komast upp úr þessu. Töfraorðið er nýsköpun. Núna er fjöldinn allur af fólki að fara að missa vinnuna eða fara í minna starfshlutfalli. Mikil hreyfing verður á atvinnumarkaðnum þannig að nú er einmitt tækifæri hins opinbera til að sýna meira á sín spil þegar kemur að nýsköpun.

Sömuleiðis er hægt að styrkja meira menningu, listir og íþróttir. Það er sérstakur liður í þingsályktunartillögunni. Það vita allir sem vilja vita að menningin, listir og íþróttir fá mikið högg núna. Þetta er líka nokkuð sem við getum ákveðið að bæta í. Þetta er lítið mál. Ég átta mig vel á því að það getur verið flóknara að ráðast í verklegar framkvæmdir því að þær þarf að bjóða út, hanna og undirbúa, en aftur ítreka ég að miðað við þær upplýsingar sem við höfum a.m.k. eru fleiri framkvæmdir en upp á 15 milljarða tilbúnar í slaginn.

Ég ætla að nefna örfá dæmi. Fasteignir heilbrigðisstofnana úti á landi eiga að fá 400 milljónir í þessu plaggi. Þar er sannarlega hægt að gera betur og vil ég sérstaklega nefna heilsugæsluna í Reykjanesbæ eða heilsugæsluna á Akureyri og legudeildirnar þar. Þetta eru fyrirbæri sem við þekkjum mjög vel og vitum sem höfum heimsótt þessa staði og fengið upplýsingar þar að þarna eru tilbúin verkefni til að ráðast í. Það eru fjölmargar góðar hugmyndir, t.d. aðgerðaáætlun fyrir Suðurnesin. Það er búið að nefna hér Reykjanesbrautina og aðrar vegaframkvæmdir.

Hjúkrunarrýmin eru stórt mál. Það er hægt að fjölga um 70 hjúkrunarrými bara núna án þess að byggja eitt eða neitt í viðbót. Það er pláss á hjúkrunarheimilum en það vantar pening í reksturinn. Það vantar einungis 1 milljarð til að fjármagna 70 hjúkrunarrými. Það skapar störf í því ástandi sem við erum í, ekki síst kvennastörf. Við skulum hafa það í huga að störfin mega ekki einskorðast við hefðbundin karlastörf. Þetta skapar störf, fyrst og fremst fyrir konur, en það léttir líka af spítölunum. Þetta er aðgerð sem við getum strax ráðist í.

Sömuleiðis er hægt að fara af stað nú þegar með tvö hjúkrunarheimili í Reykjavík samkvæmt upplýsingum þaðan. Ég er bara að nefna góðar hugmyndir sem hægt er að ráðast tiltölulega hratt í. Rafvæðing hafna liggur fyrir. Nefnum Listaháskólann, hann er búinn að vera í startholunum lengi varðandi að byggja hann upp og nú liggur fyrir greining á bestu staðsetningu hans, kjörið tækifæri til að ráðast í það. Það má byggja upp björgunarmiðstöð sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera. Setjum kraft í húsnæði sem myndi sameina ríkislögreglustjóra, lögregluna, almannavarnir, Landhelgisgæsluna og slökkviliðið. Þetta er komið langt í undirbúningi. Þessi verkefni sem ég er að nefna eru öll komin langt í undirbúningi.

Gert er ráð fyrir að liðurinn um breikkun einbreiðra brúa fái einungis 700 milljónir sem mér skilst að sé svona ein og hálf brú. Ekki svo að skilja að ég viti hvernig á að gera brýr tvíbreiðar en eftir því sem mér skilst eru þetta mannaflsfrekar aðgerðir en ekkert sérstaklega flóknar. Það er hægt að ráðast tiltölulega hratt í þær. Listi yfir einbreiðar brýr liggur svo sannarlega fyrir. Hér gætum við einfaldlega tvöfaldað eða þrefaldað þá upphæð sem dæmi.

Það eru fjölmörg verkleg verkefni sem ég er að reyna að flagga úr þessum ræðustól, og mun auðvitað gera í fjárlaganefnd, verkefni sem við getum ráðist tiltölulega hratt og vel í. Um það snýst þetta allt saman, herra forseti.

Ég deili ekki sömu áhyggjum og hæstv. ráðherra að það væri vandamál að finna verkefni. Við munum gera miklu meira. Við skulum nýta okkur ríkisfjármálin til að milda þetta högg. Ég gat um það í andsvari til ráðherra áðan að fyrsta árið eftir hrun, ég held að hæstv. forseti hafi verið fjármálaráðherra, var halli ríkissjóðs 216 milljarðar. Ef við uppreiknum í núgildandi verðlag eru það um 300 milljarðar. Hæstv. ráðherra áttar sig fullvel á að það verður mikill halli á ríkissjóði. Það er fullkomlega eðlilegt í svona ástandi en við þurfum þá að spýta talsvert í verklegar framkvæmdir, a.m.k. í sjóðina. Við getum verið sammála um að setja aðeins meira í sjóðina. Ég veit að það er mjög gott samtal innan fjárlaganefndar núna um að gera aðeins betur á þessum tímapunkti. Ég veit að hæstv. ráðherra kemur með fleiri frumvörp, seinni fjárauka síðar á árinu og annað slíkt. Ég er að hvetja til góðra verka. Hann hefur meðbyr í þessum þingsal og meðal þjóðarinnar um að hér séu settir meiri (Forseti hringir.) fjármunir í þaui verkefni sem eru mjög aðkallandi í dag, herra forseti.