150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[14:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki uppbyggilegt að við séum að takast á um það hér í ræðupúlti hversu miklu sé hægt að koma út. En þessi listi er unninn með nokkur atriði í huga sem ég hef verið að minnast á. Í fyrsta lagi að það sé raunhæft að hrinda þessum málum í framkvæmd á þessu ári. En það er fleira sem við erum að horfa til þannig að það er ekki eina spurningin sem þarf að svara, hvort hægt sé að koma peningunum út á þessu ári. Við erum að reyna að líta til verkefna sem mæta stöðunni sem er uppi í hagkerfinu þannig að við séum sérstaklega að horfa til mannaflsfrekra verkefna. Þau hafa fengið forgang umfram önnur. Auðvitað má nefna á þessum lista einhver frávik frá þeirri áherslu. Ég ætla ekki að segja að þetta sé algerlega tært, eingöngu raðað eftir mannaflaþörf í hverju verkefni, en það var mjög mikið horft til þess. Í þriðja lagi verðum við að hafa augun á því hversu arðbærar fjárfestingarnar eru. Mér finnst t.d. ekki skipta sérstaklega miklu máli núna að taka einhverjar framkvæmdir sem eru inni í langri framtíð, eitthvað í umræðunni, og flýta til ársins 2020 sem auka ekki neina arðsemi fyrir þjóðfélagið. Þá ættum við frekar að taka önnur mál. Þetta eru nokkrir lykilmælikvarðar sem við höfum viljað horfa til sem ég held að menn ættu áfram að reyna að styðjast við í vinnu þingsins.