150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

umfang og samstaða um aðgerðir við faraldrinum.

[10:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn á undan mér óska ég hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar alls hins besta í mjög erfiðu viðfangsefni í glímunni við þá skæðu veiru sem gengur yfir heimsbyggðina. Það er mjög ánægjulegt að sjá að um margt hefur skapast ágæt samstaða í þinginu, sér í lagi þegar kemur að heilbrigðisvánni sjálfri, ekki bara innan þings heldur í samfélaginu öllu. Það er fegurð í því fólgin að sjá samfélagið þjappa sér saman og standa þétt saman og hlíta í einu og öllu þeim fyrirmælum sem til okkar er beint.

Hins vegar verður að segjast eins og er að þegar kemur að efnahagsviðbragðinu er ekki þessari sömu samstöðu til að dreifa. Þó að vel hafi tekist til við ýmsar lagfæringar á þeim málum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram var alveg ljóst í vinnu nefndanna í síðustu viku að ekki var vilji til að ráðast í neinar umfangsmiklar breytingar. Allar stærri tillögur sem minni hlutinn lagði fram voru umsvifalaust stöðvaðar, margar þeirra einfaldar í framkvæmd eins og t.d. að hækka endurgreiðsluþak vegna rannsókna- og þróunarstarfsemi fyrirtækja og auka framlög til nýsköpunarsjóða, auka framlög til framkvæmda sem væri hægt að ráðast í nú þegar, auka framlög til velferðarmála og svo mætti áfram telja.

Þegar við horfum á staðreyndir máls er alveg ljóst að hér á landi er verið að gera hvað minnst á hvern íbúa í samanburði við t.d. Norðurlöndin og Þýskaland. Við erum hálfdrættingar þar á hvern íbúa ef við berum okkur saman við Svíþjóð, Danmörku eða Þýskalandi þrátt fyrir að hér sé ferðaþjónustan miklum mun veigameiri og þar af leiðandi hið efnahagslega tjón miklum mun meira en þessi lönd glíma við.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Væri ekki ráð að vinna að raunverulegri samstöðu í þinginu um meiri viðspyrnu, viðameiri aðgerðir? (Forseti hringir.) Hér er fólk að glata störfum í umfangi sem við höfum ekki séð áður. Þessa dagana, fram að mánaðamótunum, er tími aðgerða, ekki síðar.