150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þennan pakka sem er í boði. Það er þakkarvert og margt mjög gott er í honum. Það sem er slæmt er það sem vantar. Nú er búið að setja þarna inn pakka fyrir öryrkja og líka barnabætur en hvað með eldri borgarana? Margir eldri borgarar hafa það slæmt en ég sé ekki krónu fyrir þá, ekki eina krónu. Hvers vegna ekki?

Upphaflega var talað um að barnabótaaukinn yrði 40.000 fyrir þá sem væru með undir 11 milljónum í árslaun og 20.000 fyrir hina. Nú er búið að breyta því. Nú eru þetta 42.000 annars vegar og 30.000 hins vegar. Þá væri gott að fá skýringu á því hvers vegna í ósköpunum þeir sem verst eru staddir í þjóðfélaginu, öryrkjarnir, fá bara 20.000. Af hverju fá þeir ekki að lágmarki 42.000? (Forseti hringir.) Það er verið að setja 20.000 kr. (Forseti hringir.) 1. júní til öryrkja, það stendur hérna, (Gripið fram í.)í sérstakar bætur en barnabótaaukinn er 42.000. (Forseti hringir.) Ef við setjum þetta í tölulegt samhengi, hvers vegna í ósköpunum fá þá ekki öryrkjarnir ekki 42.000 kr., þ.e. hámarkið?

(Forseti (GBr): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að virða hin knöppu tímamörk.)