150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:21]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek fram að margar ábendingar komu til nefndarinnar frá fjölda hagsmunasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga, margar mjög góðar. Það er bara ekki hægt að gera allt fyrir alla. Það er einhver misskilningur hjá hv. þingmanni þegar kemur að barnabótaaukanum. Ef frumvarpið hefði verið látið standa óbreytt með barnabótaaukanum hefðum við búið til vél sem hefði verið einhver sú óréttlátasta sem ég hefði séð. Sú staða hefði komið upp að fjölskylda með lægri heimilistekjur hefði fengið lægri fjárhæð en fjölskylda með hærri heimilistekjur. Þar vorum við í nefndinni algjörlega einhuga. Við tókumst á um það hvort tekjutengja ætti barnabótaaukann (Forseti hringir.) eða ekki en við náðum þessari niðurstöðu. Við gerum þessar breytingar og við hækkum tölurnar.