150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þau bráðabirgðaákvæði sem sett eru með frumvarpinu sem við ræðum hér eru nauðsynleg til að bregðast við stöðu fyrirtækja sem annars yrði óviðráðanleg með öllu. Við í Samfylkingunni styðjum þær aðgerðir, þó með fyrirvara því að við hefðum viljað ganga lengra og gera meira. Aðgerðirnar eru tímabundnar og þær eru takmarkaðar og ekki fer á milli mála að til frekari aðgerða stjórnvalda þarf að koma og það sem allra fyrst.

Samstarfið í nefndinni var ágætt framan af og formaður nefndarinnar, hv. þm. Óli Björn Kárason, á hrós skilið fyrir hvernig hann stýrði starfi hennar. Fulltrúar stjórnarandstöðu í efnahags- og viðskiptanefnd unnu af fullum heilindum með meiri hlutanum við að bæta frumvarpið eins og kostur var á stuttum tíma. Ég gerði mér vonir um að í slíku neyðarástandi sem nú ríkir væri vilji til samvinnu mikill þvert á flokka. Það voru því vonbrigði þegar í ljós kom á síðustu metrunum að svo var ekki meðal allra stjórnarliða. Mesta andstaðan var við tillögur sem vörðuðu málefni barna og kvennastétta. Það kom mér á óvart hversu ósveigjanlegur meiri hlutinn var í þeim efnum. Fyrir fram hefðu fáir gert ráð fyrir þeirri andstöðu hjá stjórnarmeirihluta sem styður ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna. Að gera vel við fyrirtæki var hins vegar ekkert vandamál.

Breytingartillögur nefndarinnar við frumvarpið eru til bóta og formaður nefndarinnar hefur farið vel yfir þær. Ég þarf ekki að gera það aftur hér en get þó nefnt sérstaklega breytingar á gjalddögum virðisaukaskatts og möguleikum til að fella niður álag ef fresta þarf þeim greiðslum sem og skilyrði um bann við arðgreiðslum og kaupum í eigin bréfum fyrirtækja sem nýta sér úrræði stjórnvalda.

Orlofsauki til öryrkja er mjög mikilvægur á þessum erfiðu tímum.

Mörg heimili verða fyrir miklum búsifjum, ekki síður en fyrirtæki, og allflestir landsmenn munu finna fyrir versnandi efnahag meðan faraldurinn gengur yfir. Stjórnvöld verða að mæta tímabundnum rekstrarvanda heimila, ekki síður en fyrirtækja. Húsnæðiskostnaður og rekstur ökutækja er þar stór þáttur. Leigjendur verða líkt og þeir sem búa í eigin húsnæði í vandræðum með fastan kostnað í heimilisrekstri. Því fagna ég breytingartillögu stjórnarandstöðunnar í hv. fjárlaganefnd um hækkun húsnæðisbóta. Mörg sveitarfélög hafa gefið út yfirlýsingar um tilslakanir með greiðslu fasteignagjalda til fyrirtækja. Þannig þarf einnig að mæta heimilum í vanda.

Stjórnvöld þurfa að gera skýlausa kröfu til banka um að þeir veiti heimilum fyrirgreiðslu og sýni í verki að aðgerðir Seðlabanka og ríkis nýtist fólkinu í landinu sem nú er í viðkvæmri stöðu. Traust til fjármálafyrirtækja er ekki mikið og hefur ekki verið frá hruni og því þurfa stjórnvöld að beita sér og gefa skýrt til kynna að þau krefjist þess að aukin lausafjárstaða, lágir vextir og lækkun bankaskatts sem hefur verið flýtt verði til þess að heimilin í landinu fái betri kjör og góð ráð frá bönkum, svo sem um endurfjármögnun lána.

Forseti. Það er nauðsynlegt að endurskoða barnabótakerfið frá grunni. Viðmiðunartölur um óskertar barnabætur hafa ekki hækkað í rúm tvö ár og skerðingar vegna launa eru grimmar. Frá 1. apríl byrja barnabætur að skerðast við laun sem eru 10.000 kr. undir lægsta launataxta. Fjölskyldur langt undir meðallaunum ársins 2019 fá engar barnabætur. Meðallaun ársins 2019 voru um 770.000 kr. Barnabótakerfið sem stjórnarmeirihlutinn vill ekki breyta enn þá er þannig að fólk langt undir meðallaunum fær ekki barnabætur. Með hækkun barnabóta ættu stjórnvöld að vinna gegn því að efnahagsáhrif faraldursins komi um of niður á barnafjölskyldum. Barnabótaaukinn sem stjórnvöld leggja til er góð hugmynd, nú þegar fjölskyldur hafa misst tekjur hratt í því neyðarástandi sem ríkir. Það er hins vegar með ólíkindum að stjórnarmeirihlutinn leggi til með breytingartillögu að miða við tekjur ársins 2019 þegar upphæð til barna er ákveðin.

Ég gagnrýni stjórnarmeirihlutann harðlega fyrir þessa meðferð á barnabótaaukanum. Hann er einskiptisaðgerð sem nýtist ekki síst foreldrum sem hafa misst vinnuna eða stóran hluta tekna sinna vegna faraldursins og búa við óvissu um tekjur næstu mánaða. Því er fráleitt að tekjutengja barnabótaaukann við tekjur ársins 2019. Skynsamlegra og sanngjarnara hefði verið að greiða sömu upphæð vegna allra barna.

Ákvörðun stjórnarmeirihlutans verður til þess að þeir foreldrar sem voru með 1.250.000 í samanlagðar tekjur á mánuði á árinu 2019 fá 42.000 kr. með hverju barni en þeir foreldrar sem voru með 1.251.000 kr. eða meira á mánuði á árinu 2019 fá 30.000 kr. á barn. Það er grátbroslegt að verða vitni að því að stjórnarmeirihluti undir forystu Vinstri grænna vilji henda út stóru neti fyrir fyrirtækin í landinu og taki þar undir með formanni Sjálfstæðisflokksins um að gera þurfi meira en minna til að passa að ekkert fyrirtæki verði út undan sem orðið hefur fyrir tekjufalli en vilji að barnafólk sem misst hefur vinnuna fái færri krónur með hverju barni bara til að tryggja að þeir sem ekki hafa misst tekjur fái ekki fleiri krónur. Það að gera frekar meira en minna gildir ekki um barnafjölskyldur í vanda hjá stjórnarmeirihlutanum.

Stjórnvöld hafa ekki enn mætt vanda þeirra sem hafa ekki getað mætt til vinnu vegna skertrar starfsemi leik- og grunnskóla. Við þeim vanda verður að bregðast strax. Í þessum hópi eru foreldrar sem standa einir og geta ekki unnið heima. Þetta á við um fólk sem stundar ýmis umönnunarstörf og afgreiðslustörf svo dæmi séu tekin.

Forseti. Á fundum nefndarinnar var rætt um hvort og hvernig útvíkka mætti ákvæðið um Allir vinna sem virkaði ágætlega í hruninu en miðast helst við að glæða starfsemi sem karlar sinna. Því er sláandi að breytingartillögur nefndarinnar skuli eingöngu vera um enn fleiri hefðbundin karlastörf. Það sætir furðu að ekki skuli hafa náðst samstaða um að leggja fram tillögur sem snúa að fleiri kvennastéttum. Samkomubann bitnar illa á stórum iðngreinum sem konur vinna í miklum meiri hluta, svo sem hárgreiðslu og snyrtifræði. Til að glæða þar heilbrigð og öflugri viðskipti að samkomubanni loknu ætti að fella þær greinar undir ákvæðið. Einnig ætti að ýta undir hringrásarhagkerfið, t.d. með því að hvetja til viðskipta við saumastofur og sambærilega starfsemi með sama hætti.

Í frumvarpsgreininni um Allir vinna átakið er þó fjallað um störf sem nær eingöngu eru unnin af konum, heimilisaðstoð og reglulega umhirðu húsnæðis. Markmiðið með greininni er að heimili sem þurfa á heimilisaðstoð að halda spari hana ekki við sig þótt tekjur heimilisins minnki. Félagsþjónusta sveitarfélaga sinnir flestum þeim heimilum sem þurfa á slíkri þjónustu að halda. Ákvæðið beinist því að hinum sem ekki þurfa á félagsþjónustu að halda. Ákvæðið er einnig til hagsbóta fyrir fyrirtæki sem vinna á þessu sviði og verður vonandi til þess að sem fæst starfsfólk missi vinnuna. BSRB fjallar um þetta ákvæði í umsögn sinni og segir þar að 13 ára reynsla af slíkum aðgerðum hafi ekki skilað árangri í Svíþjóð. Ákvæðið hafi ekki bætt stöðu eða aukið réttindi starfsfólks en aukið þess í stað einkarekstur á félagsþjónustunni með tilheyrandi kostnaði fyrir þá sem þurfa nauðsynlega á þjónustu að halda. Það þarf að fylgjast með þróun þessara mála hér á landi við þá breytingu sem gerð er tillaga um í frumvarpinu.

Nú þegar atvinnuleysi mun aukast mjög mikið á næstu vikum er sú afleita staða uppi að atvinnuleysisbætur eru í sögulegu lágmarki miðað við lágmarkslaun. Samfylkingin gerir kröfu um að atvinnuleysisbætur verði strax hækkaðar og við þá hækkun væri eðlilegast að miða við krónutöluhækkanir lífskjarasamninganna þannig að hún yrði samtals 17.000 kr. frá 1. janúar og svo 24.000 kr. frá 1. apríl. Kaupmáttur atvinnuleysisbóta er nú mun minni en kaupmáttur lægstu launa. Þá er fyrirséð að námsmenn muni eiga í erfiðleikum á komandi mánuðum vegna þess að þeir hafa margir misst hlutastörf sem þeir stunda með námi og augljóslega verður mikill skortur á sumarstörfum sem námsmenn hafa sinnt. Námsmenn mega ekki gleymast í þessu ástandi og finna þarf lausn á þeim vanda hratt og vel.

Stóri vandinn fyrir utan þann heilsufarslega er að stærsta atvinnugreinin á Íslandi, ferðaþjónustan, er í algjöru frosti og greinin er í raun hrunin úti um allan heim. Stjórnvöld þurfa nú þegar að ákveða hvernig stutt verði enn betur við fyrirtæki þar sem starfsemi hefur stöðvast og engar tekjur koma inn og fyrirsjáanlegt er að svo verði áfram um hríð eftir að faraldurinn hefur gengið yfir. Fastur kostnaður er þar undir, svo sem húsaleiga, fasteignagjöld, tryggingar, hiti og rafmagn. Tímabundin frestun á nokkrum gjalddögum opinberra gjalda dugir ekki við þær aðstæður. Sérstaklega liggur á stuðningi við smáfyrirtæki úti um allt land og viðkvæm sprotafyrirtæki sem eiga möguleika á að dafna með auknum stuðningi. Aðgerðir Dana og Þjóðverja til að vinna gegn áhrifum Covid-19 á smáfyrirtæki eru góðar fyrirmyndir í þeim efnum.

Í neyðarástandi eins og nú ríkir geta skapast tækifæri fyrir þá sem vilja græða á ástandinu og stöðu fólks og fyrirtækja sem standa veik fyrir við þessar aðstæður. Stjórnvöld verða að vinna gegn slíku með enn frekari aðgerðum til að halda lífi í lífvænlegum fyrirtækjum. Slíkir gammar sem stunda vilja óheiðarleg viðskipti eru nú þegar farnir að þreifa fyrir sér. Þingmenn Samfylkingarinnar krefjast þess að ríkisstjórnin komi á sérstöku eftirliti með fjármálakerfi og atvinnulífi svo tryggt sé að ekki verði stunduð vafasöm viðskipti, markaðsmisferli eða innherjasvik í því hörmulega efnahagsástandi sem nú ríkir. Við leggjum auk þess þunga áherslu á að stjórnvöld sjái til þess að bankar sýni samfélagslega ábyrgð og vinni með heimilum í erfiðri stöðu.

Skilaboðin til okkar allra þessa dagana eru: Ekki vera fávitar. Ef við vörumst að vera fávitar og sýnum samfélagslega ábyrgð á öllum stigum mun okkur farnast vel. Samráð og samtal og gott upplýsingaflæði milli stjórnar og stjórnarandstöðu þarf að vera til staðar um frekari lausnir til að verjast alvarlegum afleiðingum faraldursins. Við verðum að gæta að lýðræðinu með réttum upplýsingum frá stjórnvöldum og leita eftir samstöðu um lausnir. Öfgaöfl þrífast á óvissu, reyna að finna sökudólga og bjóða upp á óábyrgar lausnir og falsfréttir. Með samráði og breiðri samstöðu er hægt að koma í veg fyrir slíkt hér á landi.

Um leið og samráð er komið á innan lands er alþjóðleg samvinna afar brýn. Ef löndin í kringum okkur loka sig enn meira af í langan tíma mun það hafa miklar afleiðingar hér heima. Samvinna um aðgerðir og lausnir um frjáls og opin samfélög, aukinn jöfnuð, mannréttindi og frelsi eftir að faraldurinn hefur gengið yfir er lykill að góðri niðurstöðu.

Forseti. Nú erum við í auga stormsins og mitt í því er skyggnið ekki alltaf mjög gott. Erfitt er að sjá hvað verður, hvaða lærdóm megi draga af stöðunni og hvað ætti að gera betur. Eitt er þó víst, tvennt höfum við nú þegar lært af Covid-19 heimsfaraldrinum sem við verðum að taka með okkur inn í framtíðina. Við verðum á öllum tímum að búa við öflugt heilbrigðiskerfi og fjölbreytt atvinnulíf. Sterkt og gott heilbrigðiskerfi fyrir alla er okkur lífsnauðsynlegt og að það standist mikið álag í framlínu almannavarna og þjóðaröryggis. Fjölbreytt atvinnulíf er einnig afar mikilvægt fyrir efnahag heimila, fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga. Hér á landi er það of einsleitt og í uppbyggingunni fram undan við að renna fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf.

Álag á heilbrigðisstarfsmenn og kerfið allt er gríðarlegt nú um stundir og á eftir að aukast þegar enn fleiri hafa smitast. Það leggst ofan á of mikið álag sem fyrir var áður en heimsfaraldur skall á. Um leið og heilbrigðisstarfsfólk fær hrós og þakkir er smánarblettur við þessar aðstæður að stjórnvöld skuli ekki hafa samið um kaup og kjör starfsfólksins sem hefur verið samningslaust um langt skeið.

Allar fjárhagsáætlanir hljóta að verða teknar úr sambandi á meðan faraldurinn gengur yfir. Það má ekki standa á fjármunum til að verja heilsu fólks og varla er ástæða til að ætla að sú verði raunin nú þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra boðar aðgerðir og telur ríkissjóð vera vel í stakk búinn til að gera meira en minna. Að vísu nefndi hann það í umræðu um aðstoð við fyrirtæki en það hlýtur að vera óhætt að ganga út frá því að hið sama eigi við um fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins. Stjórnvöld þurfa að átta sig vel á að almenningur mun ekki sætta sig við að heilbrigðisstofnunum verði gert að mæta auknum kostnaði sem veldur hallarekstri í ár með niðurskurði og skertri þjónustu á næsta ári. Enn betra heilbrigðiskerfi í fremstu röð er ein sterkasta stoð þjóðaröryggis og verður að vera markmiðið til framtíðar.

Ferðaþjónustan hefur vaxið hér á landi með ósjálfbærum hætti. Stjórnvöld ýttu undir vöxtinn með ýmsum hætti og greinin átti stóran þátt í því að góðæri ríkti eftir að endum var náð saman eftir hrun. Ferðaþjónustan stóð undir 8,6% af landsframleiðslunni í fyrra sem er fjórum sinnum meira en ferðaþjónustan í Danmörku og meira en 2 prósentustigum meira en í Grikklandi. Þess vegna þurfa aðgerðir okkar vegna ferðaþjónustunnar að vera stærri í sniðum en í löndunum í kringum okkur sem ekki byggja á ferðaþjónustu sem meginstoð í atvinnulífinu. Ferðaþjónustan er mannaflsfrek og þar verða til mörg láglaunastörf. Greinin stendur nú berskjölduð fyrir afleiðingum veirunnar og ferða- og samkomubanns.

Alþingi samþykkti á dögunum lög um hlutaatvinnuleysisbætur svo að starfsfólk og fyrirtæki geti haldið ráðningarsambandi í þrengingum. Einnig voru gerðar að lögum leiðir til að greiða fólki laun í sóttkví og til að fresta greiðslu gjalda sem fyrirtæki eiga að standa skil á til ríkisins. Flest þau úrræði sem og þau sem við ræðum í dag eru hugsuð til að koma til móts við fyrirtæki sem eiga í tímabundnum erfiðleikum á meðan faraldurinn gengur yfir og vinna gegn atvinnuleysi. Þær eru allar nauðsynlegar en það verður líka nauðsynlegt að stjórnvöld komi með frekari aðgerðir fyrir fyrirtæki sem verða í frosti til lengri tíma. Það þarf að gæta að smærri fyrirtækjum sérstaklega og viðkvæmum sprotafyrirtækjum, eins og ég hef áður sagt, ef þau eiga að standa af sér storminn. Og við verðum að tryggja að samgöngur til og frá landinu séu opnar.

Fjölbreyttara atvinnulíf til framtíðar verður að vera markmiðið með öflugum aðgerðum til að örva nýsköpun og tækniframfarir, bæði með fjármunum í sjóði sem sækja má í en einnig með alvöruinnspýtingu í menntakerfið, ekki síst starfsmenntun og símenntun.

Að lokum, forseti, er nauðsynlegt að horfa til sveitarfélaganna í landinu. Það er nauðsynlegt að horfa sérstaklega á þau landsvæði og þau sveitarfélög sem eru sérlega útsett fyrir þeim vanda sem samfélagið allt fer nú í gegnum. Sum samfélög treysta á stóra vinnustaði sem núna hefur verið lokað. Þar er atvinnuleysi nú þegar orðið mikið og fer vaxandi. Sveitarfélögin sem sinna nærþjónustunni, leikskólum, grunnskólum, fötluðum og þjónustu við aldraða, verða líka fyrir tekjufalli eins og ríkissjóður og kostnaðurinn eykst sömuleiðis. Það þarf að gæta að því að þau hafi bolmagn til að sinna nærþjónustunni vel sem er svo mikilvæg einmitt þegar slíkt neyðarástand ríkir og við förum í gegnum þá erfiðleika sem nú standa fyrir dyrum. Enn hefur faraldurinn ekki náð hámarki sínu þannig að ástandið á eftir að versna áður en við getum horft til bjartari tíma. Þá er mikilvægt, forseti, að við höfum í huga að faraldurinn gengur yfir og að lokum getum við aftur tekið til við eðlilegt líf, en þá verða sveitarfélög, ríki og við öll að hafa séð til þess að lágmarka skaðann.