150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég nefna samstarfið. Ég held að það hefði verið betra ef samstarf hefði verið um samningu frumvarpsins og að frá fyrstu sporum hefði verið samstarf á milli flokkanna og þvert á flokka. Aðstæðurnar eru þannig að við eigum öll að taka saman höndum og þá verðum við líka öll að gefa pínulítið eftir um leið og við fáum eitthvað fyrir okkar snúð. Þannig gekk ég t.d. inn í nefndarstarfið, svo ég tali fyrir mig og ég er viss um að það á við um fleiri, og ég var tilbúin að samþykkja ýmislegt þar sem ég hef gjarnan viljað hafa öðruvísi ef ég hefði fengið á móti það sem brann mest á mér, eins og að fara með barnabótaaukann í aðra átt en niðurstaðan varð.

Varðandi Allir vinna ákvæðið held ég að einkum hafi verið litið til þess vegna þess að það reyndist vel í hruninu. Auðvitað hefði samt átt að skoða það út frá stöðunni eins og hún er í dag. Mörg þjónustustörf eru hreinlega ekki til lengur og fólki hefur verið algjörlega sagt upp og er ekki einu sinni með hlutaatvinnuleysisbætur, störf sem konur sinna. Svo eru aðrar greinar í algjöru frosti, eins og hárgreiðsla, störf sem snyrtifræðingar sinna, nuddstofur, sem er bannað að vera með starfsemi meðan þetta gengur yfir. Við gætum auðvitað lagst yfir þetta og komið með tillögur um hvernig við getum glætt þessi störf eftir að faraldurinn hefur gengið yfir (Forseti hringir.) og einnig komið til móts við þann stóra hóp kvenna sem missir vinnuna núna í þjónustugeiranum.