150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er líka þannig með greinarnar sem nefndar eru í Allir vinna, iðngreinarnar og t.d. er talað um viðgerðir á íbúðarhúsnæði, að við erum ekkert að kalla fólk heim til okkar í því ástandi sem nú varir. Það verður einhver töf á að það úrræði fari að virka vel. Hið sama á við um hreingerningar á heimilum. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju iðngreinar sem kvennastéttir sinna að mestu geta ekki fallið undir ákvæðið. Ákvæðið er hugsað til að glæða viðskipti og passa að þau fari ekki inn í svarta hagkerfið. Auðvitað geta þessar stéttir farið þangað líka. Af hverju ættum við ekki að reyna að glæða viðskiptin þar? Ég veit ekki hver rökin eru og ég skil þau ekki hafi einhver reynt að færa þau fram.

Annaðhvort verðum við að gera þetta eða horfa sérstaklega á efnahag þessara litlu fyrirtækja. Úti um land er oft bara ein hárgreiðslustofa eða einn snyrtifræðingur sem heldur úti stofu og þær stofur ráða alls ekki við að missa viðskipti með þeim hætti sem samkomubannið skyldar þær til að gera. Þeim er gert að loka, stjórnvöld segja þeim að gera það. Þær geta fengið að fresta einhverjum greiðslum en ég get ekki séð að það sé nægileg aðgerð og þá verður að koma með einhvers konar beina styrki. Verkefnið sem slíkt er verðugt og mér finnst að við ættum þvert á flokka að setjast niður (Forseti hringir.) með öðrum, fyrir utan þinghúsið líka, og reyna að smíða góðar tillögur til að koma til móts við vinnumarkaðinn sem er eins kynskiptur og raun ber vitni.