150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögur ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 veirunnar. Fjármálaráðherra hefur ítrekað sagt að hann telji að við eigum að gera meira heldur en minna og í því samhengi er eiginlega furðulegt að í fyrstu tillögunum voru öryrkjar ekki inni með sérstakar greiðslur. Þeir eru komnir inn en á þann furðulega hátt að þeir fá 20.000 kr. greiðslu, sem er mjög gott og ber að þakka og veitir ekki af, en setjum það í samhengi við það að við erum að borga 42.000 kr. til þeirra sem hafa fengið barnabætur óskertar eða skertar að hluta og síðan erum við að borga 30.000 kr. til þeirra sem hafa aldrei fengið barnabætur vegna þess að þeir eru svo tekjuháir. Og ef við setjum þetta í samhengi myndi ég segja að við hefðum átt að vera með tölurnar þannig að 50.000 kr. væru fyrir öryrkja, 42.000 kr. fyrir börnin og við hefðum að ósekju getað sleppt 30.000 kr., nema til þeirra sem geta sannað að þeir þurfi virkilega á því að halda vegna skerðingar á launum eða öðru sem þeir hafa orðið fyrir vegna veirunnar.

Eldri borgarar eru núna komnir inn líka og það var gert af minni hluta fjárlaganefndar, minni hlutanum í þingi. Þá vil ég nefna neðstu tíundirnar, þá sem fá ekki neina aðra framfærslu en berstrípaður greiðslur frá Tryggingastofnun. Við hefðum viljað sjá að tekið væri utan um SÁÁ sem er nú að missa nánast allt sitt sjálfsaflafé vegna faraldursins; álfasalan, styrktarsjóðir frjósa vegna faraldursins. Við munum sennilega aldrei í sögunni þurfa á eins mikilli hjálp að halda fyrir þá veikustu og einstaklinga sem eru lokaðir inni í einangrun. Við verðum að átta okkur á því að í þessum faraldri hefur sala á áfengi tvöfaldast á nokkrum dögum. Við verðum bara að vona að fljótlega verði brugðist við og öllum hjálpað. Í því samhengi má benda á að Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra, var að senda frá sér tilkynningu og þar segir, með leyfi forseta:

„Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra, vekur athygli stjórnvalda á því að efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins Covid-19 koma illa niður á þeim fötluðu einstaklingum. Mikið er um húsnæði sem hefur verið í byggingu sem nú stendur lyftulaust eða aðra þættir sem snúa að aðgengi vantar og hefur jafnvel gert það í mörg ár. Hægt er að telja fleiri byggingar en færri sem þannig er ástatt um.

Viðbúið er að byggingar sem þannig er ástatt um muni standa mörg ár til viðbótar nú þegar efnahagslegar hamfarir ganga yfir heimsbyggðina.

Undirritaður veltir því fyrir sér hvort að nú sé tækifæri að skrá allar þessar byggingar í sérstöku atvinnuátaki.

Endurreisn framkvæmdasjóðs fatlaðra er hins vegar nauðsynleg til að bæta aðgengi að umræddu húsnæði. Undirritaður telur að slíkur sjóður gæti starfað á svipaðan hátt og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða en hann hefði aðeins það hlutverk að bæta aðgengi fyrir alla þar sem skortur á aðgengi er til trafala.“

Þetta er eitt af því sem við gætum tekið inn í pakkann og tryggt það að allir geti komist leiðar sinnar á sem einfaldastan hátt. Miðflokkurinn, Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins standa að minnihlutaáliti og í því er t.d. tillaga um að fjárfesta í hjúkrunarheimilum fyrir 5 milljarða og margar góðar tillögur. Þar á að vísu að setja töluvert meiri pening en ríkisstjórnin ætlar að gera í þessum björgunarpakka. Það er t.d. aðdáunarvert að ákveðinn hópur heilbrigðisfólks er í fremstu víglínu og þarf að vinna gífurlega vinnu við mjög erfiðar aðstæður og segir sig sjálft að það á að sjá til þess að það fái umbun fyrir sína vinnu. Og í því samhengi er líka vert að benda á að það er ekki eðlilegt að ekki skuli vera búið að semja í málefnum hjúkrunarfræðinga og að ekki skuli fyrir löngu vera búið að ganga frá öllum samningum sem varða heilbrigðisfólk.

Ég vil koma betur að því sem kom fram í máli mínu í upphafi. Það sem ég get ekki skilið er hvers vegna í ósköpunum einhverjum datt í hug að borga út barnabætur til þeirra sem áður hafa ekki fengið þær vegna þess að þeir hafa verið of tekjuháir og þar af leiðandi fallið undir skerðingar en á sama tíma hefur ríkið, ár eftir ár, núverandi ríkisstjórn og fyrrverandi ríkisstjórnir, stóraukið skerðingar til eldri borgara og öryrkja. Ef við setjum þetta í eitthvert samhengi þá eru skerðingar í dag um 60 milljarðar hjá eldri borgurum og öryrkjum. Þar erum við að tala um 5 milljarða á mánuði. Ef við viljum taka út einhverjar skerðingar þá gætum við byrjað þarna. Ef við setjum það í samhengi við allan björgunarpakkann upp á 230 milljarða, eins og hefur verið sagt, þá væri það lítið í prósentum talið ef einn mánuður hefði verið tekinn út og hætt að skerða. En það dugir ekki til. Eins og áður hefur komið fram er þarna stór hópur undir sem lendir ekki einu sinni í skerðingum og er á langlægstu bótunum. Honum þarf að hjálpa og taka utan um. Ef við gerum það ekki á róðurinn eftir að þyngjast verulega vegna þess að þetta er hópurinn sem á ekki fyrir mat, lyfjum eða öðrum nauðsynjum í lok mánaðarins. Nú eru að koma mánaðamót og þá kemur inn sama upphæð og vanalega hjá þessum hópi sem er svo lág að hún er langt undir fátæktarmörkum, þ.e. sárafátækt.

Það segir okkur hversu óskiljanlegt það er að við skulum ekki hafa á neinum tímapunkti, enginn hefur gert það, fundið út hver er venjuleg framfærsla. Það var gert að vísu fyrir nokkrum árum síðan en niðurstöðunni var stungið undir stól. Síðan hefur verið miðað við einhverja furðulega og undarlega lága upphæð sem ég hef oft spurt mig hvernig í ósköpunum var fundin út og hef ekki fengið nein svör við því. Sem er kannski ekkert undarlegt vegna þess að ef rétt væri gefið, og við þurfum ekki annað en að fara aftur til þess þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp og endurreikna bætur almannatrygginga, þá værum við ekki að tala um að einhver væri með 200.000 kr. útborgaðar. Það væri komið vel yfir 300.000 kr. Það er það sem við þurfum. Fólk þarf á þeirri upphæð að halda.

Síðan er svolítið skrýtið með þennan björgunarpakka ríkisstjórnarinnar að þetta eru allt karlastörf. Þetta eru eiginlega 90–95% störf fyrir karla en konur sitja eftir. Ég rak augun í það í yfirlestri mínum að það var eiginlega vísað á sveitarfélögin, þau ættu að búa til störf fyrir konur. Og ég spyr: Af hverju ekki ríkið líka? Af hverju að beina því til sveitarfélaganna? Þarna vantar að bæta vel í vegna þess að þetta þarf að hjálpa öllum.

Annað í pakkanum er hvernig skiptingin er. Fjárveitingarnar eru t.d. nauðsynlegar í vegaframkvæmdir og þar eru ýmsir góðir punktar, en það þarf að bæta vel í. Eitt af því sem við ættum að gera núna væri að klára t.d. Reykjanesbrautina frá höfuðborgarsvæðinu alveg inn að Keflavík, tvöfalda hana. Það væri mjög gott framtak og myndi bæta umferðaröryggi gífurlega því eins og við vitum er þetta mjög slæmur kafli upp á slys að gera. Við höfum verið að setja upp dæmi um hverju eigi að forgangsraða og ég segi fyrir mitt leyti að við eigum að forgangsraða númer eitt, tvö og þrjú gagnvart vinnu og fólki. Þeir sem eru verst staddir í dag og eru að missa töluverða vinnu og eru komnir í hlutastörf og hinir sem eru komnir á atvinnuleysisskrá — þetta er orðinn gífurlega stór hópur. Þarna er ekki um mjög auðugan garð að gresja vegna þess að atvinnuleysisbætur eru um 280.000 kr. Þær eru samt töluvert hærri en örorkulífeyrir og töluvert hærri en það sem margir eldri borgarar eru að fá. Og eins með þá þarf að bæta þarna í. Það segir sig sjálft og við vitum, það þarf ekki að upplýsa einn eða neinn um það, að það lifir enginn neinu sældarlífi á 220.000 kr. útborgað eða minna. Það finnst mér að ætti að skipta okkur öllu máli vegna þess að tölfræðin sýnir okkur, í Bretlandi var gerð könnun sem sýndi fram á það svart á hvítu, að fátækt kostar miklu meira fyrir þjóðfélagið heldur en að sjá til þess að enginn sé í fátækt. Þar koma inn áhrifin á heilsu fólks, sjúkrahúsin, heilsugæslur, lyf og annað. Þess vegna er það alveg á hreinu að það besta sem við gætum gert fyrir þjóðfélagið í heild sinni væri að sjá til þess að enginn þurfi að lifa við fátækt. En því miður er ekki meiri hluti fyrir því á þingi. Það virðist vera meiri hluti fyrir því að halda svoleiðis hlutum óbreyttum.

Þá er næsta spurning: Hvers vegna í ósköpunum hefur ríkisstjórnin eftir ríkisstjórn ekki séð til þess í eitt skipti fyrir öll að eyða þeirri smán okkar að 500–600 fjölskyldur þurfi og verði að treysta á matargjafir, bíða í röðum eftir matargjöf eins og var? Núna fær ákveðinn hópur sendan matarpakka heim en ég veit að því miður fá það ekki allir. Sumir eru ekki í netsambandi eða geta hringt og bjargað sér sjálfir. Það er ömurlegt til þess að vita að á okkar tíma, árið 2020, skuli vera einstaklingar búandi heima hjá sér, einir, með galtóman ísskáp og geta enga björg sér veitt. Það setur á okkur hin að við verðum að standa í fæturna og fylgjast vel með. Við verðum að benda á hvar skóinn kreppir, [Kliður í þingsal.] reyna að finna þessa einstaklinga, koma upplýsingum til þeirra um hvert þeir geta leitað. Það er verið að setja upp síma hjá Rauða krossinum sem mun verða hægt að hringja í og einnig netfang hjá velferðarráðuneytinu. Það er gott svo langt sem það nær.

Það sem vantar líka inn í þetta og ég hef hvergi séð í neinum af þeim plöggum sem hérna eru er hvað ríkisstjórnin ætlar að gera fyrir Hjálparstarf kirkjunnar, Fjölskylduhjálp Íslands, Mæðrastyrksnefnd. Ekki er króna lögð í það. Ég vona heitt og innilega að það verði hægt að drífa í því að leggja þarna inn einhverjar milljónir, þær skipta sköpum. Þarna þurfa bæði ríki og sveitarfélög að koma að vegna þess að á þessar stofnanir treystir fólk. Ég myndi segja að það væri frábært ef þeim peningum sem þarna yrðu settir inn yrði varið til þess að þessir einstaklingar gætu fengið heilnæmar vörur, lýsi, D-vítamín, C-vítamín, allt sem hjálpar og við vitum að hjálpar. Ef við gerum það ekki held ég að það eigi eftir að valda okkur mun meiri kostnaði. Eins og ég sagði í upphafi þá skilar það sér til baka sem þarna er sett inn, það skilar sér með betri heilsu, minna álagi á heilbrigðiskerfið og allir græða á því. Undirstaðan er að beita heilbrigðri skynsemi í svona málum, ekki bara að setja upp skynsemisgleraugun rétt fyrir kosningar og taka þau svo niður og fara í gamla, góða farið. Við verðum að sjá til þess að allir fái björgunarpakka, enginn verði skilinn út undan. Ef okkur tekst það er vel sloppið en ef okkur tekst það ekki þá er það ömurlegt. Í svona árferði eins og nú er eigum við ekki að skilja einn einasta út undan.