150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Til að spara tíma ætla ég að láta nægja að lesa fyrirvara minn við það nefndarálit sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar kynnti áðan, álit sem allir nefndarmenn skrifuðu undir, en að allmargir með fyrirvara og þar með talið ég. Fyrirvarinn hljóðar svo:

„Frumvarpið hefur tekið verulegum breytingum í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar. Ástæða er til að þakka formanni nefndarinnar fyrir að hafa gefið nefndinni tækifæri til að gera þessar breytingar og að hafa sjálfur haft frumkvæði að breytingum. Tekið hefur verið tillit til ýmissa ábendinga sem birst hafa í innsendum umsögnum og athugasemdum gesta. Þetta á bæði við um lagfæringu tæknilegra ágalla og efnisbreytingar. Breytingar sem nefndin leggur til koma til móts við margt af því sem þingmenn Miðflokksins bentu á við fyrstu umræðu um málið.

Afstaða Miðflokksins hefur verið sú að stjórnvöld hefðu átt að tilkynna um aðgerðir fyrr en raunin varð á og að þær hefðu átt að vera mun umfangsmeiri en þær voru. Þó höfum við ítrekað að þingmenn flokksins myndu liðka fyrir öllum aðgerðum sem væru til þess fallnar að mæta hinum skaðlegu áhrifum kórónuveirufaraldursins. Ljóst er að mjög brýnt er að afgreiða málið enda þurfa margar þeirra breytinga sem kveðið er á um í frumvarpinu ásamt breytingartillögum nefndarinnar að koma til framkvæmda fyrir mánaðamót. Af þessum ástæðum skrifa ég undir nefndarálitið og legg ekki fram breytingartillögur umfram þær tillögur sem nefndin leggur til sameiginlega.

Margar breytingartillögur nefndarinnar og sumar þeirra athugasemda sem birtast í álitinu eru til mikilla bóta og bera í ákveðnum tilvikum vott um gagnlegt innsæi. Þó tel ég mikilvægt að fram komi að ég er ekki sammála öllu því sem birtist í áliti nefndarinnar og er mjög andsnúinn sumum þeirra ályktana sem þar birtast.

Vert er að nefna nokkur dæmi um atriði sem ekki hafa verið leidd til lykta á fullnægjandi hátt. Þetta er ekki tæmandi listi en dæmin eru nefnd til að sýna fram á hvað betur hefði mátt fara í áliti nefndarinnar.

Afgreiðsla tillögu um sérstakan barnabótaauka er með öllu óskiljanleg. Komið hefur fram að það sé verulegum erfiðleikum háð að framkvæma tillöguna á þann hátt sem ríkisstjórnin kynnti og birtist í frumvarpinu. Sú tekjutenging sem lögð er til grundvallar er illframkvæmanleg enda liggja ekki fyrir gögn um skattgreiðslur síðasta árs. Jafnframt er ljóst að tekjur á liðnu ári segja í mörgum tilvikum ekkert um tekjur og aðstæður fólks á yfirstandandi ári vegna áhrifa heimsfaraldursins. Loks hefur komið fram að það að gera aðgerðina almennari, á þann hátt að hún nái jafnt til allra sem hafa börn á sínu framfæri, myndi hlutfallslega leiða til mjög lítillar kostnaðaraukningar. Leiða má líkur að því að flækjurnar sem fylgja því að ná fram hinni rakalausu tekjutengingu muni reynast kostnaðarsamari en einföldun. Sú einföldun hefði auk þess tryggt fólki sem misst hefur atvinnu sína, eða verulegan hluta tekna, bætur sem nýst hefðu börnum viðkomandi. Ekki var annað að heyra í umræðum í nefndinni en að á þessu væri víðtækur skilningur. Sú niðurstaða sem liggur fyrir vekur því furðu og ekki örgrannt um að byggt sé á pólitískum kennisetningum fremur en tilliti til raunverulegra aðstæðna.

Borið hefur á því að reynt hafi verið að leysa úr flækjum með því að flækja málin enn meira. Slíkar aðferðir eru afar óviðeigandi við þær aðstæður sem nú eru uppi þar sem allt kallar á að aðgerðir séu eins almennar og einfaldar og kostur er.

Veruleg vandkvæði eru á útfærslu aðstoðar við fyrirtæki. Nægir þar að nefna að skilyrðin sem setja á fyrir því að fyrirtæki sem eiga kost á lánum með hlutdeildarábyrgð ríkisins virðast til þess fallin að útiloka fyrirtæki sem hafa ekki lent í mestu rekstrarerfiðleikunum, enn sem komið er, en eru þó líkleg til að lenda í miklum erfiðleikum innan skamms. Þannig skapast hætta á því að fyrirtæki sem haldið gætu fólki í vinnu og reynst burðarásar hagkerfisins til lengri tíma falli milli skips og bryggju. Fyrirtækin gætu þá skaðast að því marki að þau þyrftu að segja upp fólki og reyndust illa í stakk búin til að leiða endurreisn efnahagslífsins.“

Hér má bæta því við, frú forseti, að þetta mál heyrir að talsverðu leyti undir fjárlaganefnd og fyrir sitt leyti hefur efnahags- og viðskiptanefnd gert breytingar til að draga úr þeim skilyrðum sem sett höfðu verið í samráði við fjárlaganefndina. Engu að síður er ástæða til að lýsa áhyggjum af því hvaða skilyrði er lagt upp með í þeirri vinnu sem Skattinum er ætlað að vinna við það að gera upp á milli fyrirtækja. Þá held ég áfram með fyrirvarann.

„Með frumvarpinu ásamt breytingum nefndarinnar er Skattinum falið mjög umfangsmikið hlutverk við að meta fyrirtæki og rétt þeirra til ríkisaðstoðar. Enn er þó verulegum vafa undirorpið hvernig Skatturinn á að leysa þetta hlutverk af hendi og ljóst að það mun fela í sér gríðarmikla vinnu, tíma og fjölda álitamála. Þetta er enn ein áminningin um mikilvægi þess að aðgerðir sem ráðist er í við þessar aðstæður séu eins almennar og einfaldar og kostur er og að hægt sé að innleiða þær hratt.

Nefna mætti fjölmörg önnur dæmi um það hvernig taka hefði mátt meira tillit til þeirra ábendinga sem bárust nefndinni, t.d. varðandi áhrif áfengisgjalds á ferða- og veitingaþjónustu sem og áhrif fasteignaskatta. Þá eru ótaldar þær aðgerðir sem bæta hefði mátt við áform ríkisstjórnarinnar en eins og fyrr greinir gefst nefndinni vart svigrúm til að standa að tillögum sem falla utan þess ramma sem frumvarpið setur.

Þegar ríkisstjórnin kynnti aðgerðirnar sem nefndin hefur nú tekið til umfjöllunar var nefnt að breyttar aðstæður myndu kalla á frekari aðgerðir. Að mínu mati var ljóst áður en aðgerðirnar voru kynntar að aðstæður yrðu fljótlega mun verri en þær sem tillögunum var ætlað að mæta. Í því samhengi er rétt að minna á að því fyrr sem gripið er til viðeigandi ráðstafana þeim mun líklegri eru þær til að skila tilætluðum árangri og þeim mun minni verður kostnaðurinn fyrir samfélagið þegar upp verður staðið.

Þótt ég undirriti nefndarálitið af framangreindum ástæðum ítreka ég mikilvægi þess að ráðist verði í frekari aðgerðir án tafar og að nefndin leyfi sér að laga tillögur ráðherra að raunverulegum aðstæðum eða hafi frumkvæði að því að leggja til aðgerðir sem eru til þess fallnar að lágmarka tjón samfélagsins af því neyðarástandi sem nú ríkir.“

Svo hljóðaði fyrirvari minn við nefndarálitið. Að lokum vil ég ítreka þakkir til nefndarformanns og annarra nefndarmanna fyrir gott samstarf í nefndinni á heildina litið.