150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fólst ekki nein viðbótarspurning í seinna andsvari hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, kannski meira árétting. Ég get bara áréttað varðandi þann umbúnað sem verður um þessi lán, um leið og það þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki í ljósi óvissu og alvarlegrar stöðu, að ég fór yfir það í ræðu að á næstu vikum og mánuðum þarf auðvitað að afla upplýsinga um stöðuna og þær munu birtast. Það er auðvitað miklu heilbrigðara að lánastofnanir sem þekkja viðskiptavini sína muni af heilindum fara vel yfir það hvaða fyrirtæki eru í það alvarlegri stöðu að þau þurfa að nýta þessi úrræði en um leið er mikilvægt að hér sé gagnsæi, jafnræði og traust og allt uppi á borðum. Við munum svo sannarlega fylgja því eftir í fjárlaganefnd.