150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert talað niður íslenskt heilbrigðiskerfi. Þau vinna þar alveg frábært starf þrátt fyrir þær aðstæður sem þar eru, eins og varðandi hjúkrunarheimilin, álagið vegna fráflæðisvanda Landspítala – háskólasjúkrahúss vegna skorts á hjúkrunarfræðingum vegna þess að sett voru lög á kjarabaráttu þeirra. Þrátt fyrir öll áföllin sem þau hafa orðið fyrir og þrátt fyrir þann þrönga kost sem þau hafa þurft að starfa við geta þau samt brugðist svona við. Við skulum ekki gleyma því að ein af ástæðunum fyrir því að við þurfum að bregðast svona rosalega hratt við er einmitt að heilbrigðiskerfið þolir ekki það mikið álag. Við þurfum að bregðast þeim mun meira við í svona ástandi til að passa það að dreifingin á sjúkdómnum verði ekki of hröð og að við missum það ekki úr böndunum. Það er að sjálfsögðu gott að tvennu leyti, bæði til að valda ekki álagi og til að dreifingin verði yfirleitt ekki mikil.

Vissulega er Stafrænt Ísland þarna — loksins. Það þurfti heimsfaraldur til að byrja loksins á því. Við erum búin að segja í mörg ár að þetta væri eitthvað sem við þyrftum að gera. Við vorum rosalega framarlega varðandi stafrænt Ísland á árum áður, það var fyrir hrun, svo bara algjörlega gleymdist það verkefni einhvern veginn, að vissu leyti skiljanlega en samt ekki til langs tíma, sérstaklega ekki í kjölfar enduruppbyggingar eftir hrun.

Tækniþróunarsjóður er að byrja frá rosalega lágum framlögum eftir hrunið þannig að uppbyggingin þar fram að þessari ríkisstjórn var þó nokkur en eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom inn á hefur planið verið að minnka framlögin þar.

Það hefur verið safnað saman í hlöðuna, segir hv. þingmaður. Ég hef sagt á móti að við höfum ekki hugmynd um hvort við höfum borgað niður (Forseti hringir.) óhagkvæmustu lánin eða ekki. Það vantar alla greiningu á því. Kannski hefðum við getað verið búin með innviðafjárfestinguna á einhvern hátt og þannig verið með meira svigrúm til að bregðast við svona málum.