150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:11]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé nefnilega jákvætt hvað við höfum þó verið að gera, t.d. í vegamálunum. Ég er áhugamaður um fækkun umferðarslysa. Á 40 ára tímabili hefur slysum á Íslandi fækkað áttfalt til tífalt á keyrðan kílómetra. Það er af því að við höfum verið að bæta kerfin, það er nákvæmlega þannig. Það er ekki hægt að segja að við séum með sama vegakerfið í dag og við vorum með fyrir 40 árum. Þetta á við um svo margt í samfélaginu, hvað við erum búin að takast á við hluti og gera margt. Við gleymum því stundum.

Síðan langar mig rétt að koma inn á það hjá hv. þingmanni áðan með hagvöxtinn. Ég áttaði mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður var að fara þar. Þjóðhagfræði var ein af mínum uppáhaldsgreinum í skóla og fyrir svona 40 árum þegar maður var að alast upp fóru að meðaltali um 35% af rekstri íslenskra heimila í það að kaupa í matinn. Þetta hlutfall er í dag 12–15%. Það skiptir máli að byggja upp hagvöxt og landsframleiðslu. Auðvitað eigum við að gera það með sjálfbærum hætti og sem öflugustum hætti og ég tel okkur Íslendinga einmitt hafa verið að gera það í gegnum árin. Við eigum gríðarlega öflugt kerfi, fámenn þjóð á eyju langt norður í hafi. Faraldurinn núna sýnir nákvæmlega hvað við erum að spila vel úr hlutunum. Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig við spilum úr þessum faraldri núna, Covid-19. Mér heyrist að heimspressan sé farin að taka undir það núna vítt og breitt. Það sýnir hvað við erum öflug að taka með þekkingu á hlutum. Það er til fyrirmyndar hvernig okkar kerfi hafa verið byggð upp í tengslum við þetta.

Almennt held ég að í meiri hluta fjárlaganefndar hafi verið mjög góð umræða síðustu vikuna á öllum þessum fjarfundum um hvert við viljum stefna og um þær hugmyndir sem þar er unnið að. (Forseti hringir.) Okkur greinir kannski á um hversu miklu fjármagni við getum komið út á næstu níu mánuðum. Það er heildarmyndin.