150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum komin að lokum þessarar umræðu. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir ræðuna. Hann fór mjög vel yfir fyrirvara sem samflokksmaður hv. þingmanns, hv. þm. Inga Sæland sem á sæti í hv. fjárlaganefnd, gerir grein fyrir í nefndaráliti meiri hlutans og er samþykk því með þessum fyrirvara og lagði margt gott til í nefndinni.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á bágri stöðu íþróttafélaganna. Ég vil draga það fram að fyrir liggur tillaga um 750 millj. kr. aukið framlag til menningar, lista og íþrótta. Nefndin leggur til 250 milljónir aukalega. Þá er og í aðgerðapakkanum, hinum svokallaða bandormi, ákvæði um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnuþætti framkvæmda á þessu ári og það á að geta nýst. Ég bind miklar vonir við að víðtækari tillögur sem starfshópur sem ég hafði forystu fyrir lagði fram geti orðið að veruleika, þó að það sé ekki í þessari atrennu, til að styðja almannaheillastarf allt í landinu.

Ég vil líka nefna að ég er sammála hv. þingmanni um að það skiptir mjög miklu máli þegar við erum að fjalla um slíkar tillögur að þær fari á réttan stað og þær nýtist inn í fjárfestingarátakið eins og það er lagt upp, skapi atvinnu og komi inn á réttan tímapunkt. Ég vil líka draga fram að fjölmargar af þeim breytingartillögum sem birtast í áliti meiri hlutans eru hugmyndir og tillögur minni hluta. Við vorum saman í þessu. Ég kem að því í síðara andsvari.