150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[19:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Það er svo sem alvanalegt að stjórnarmeirihlutinn greiði atkvæði gegn breytingartillögum frá stjórnarandstöðu. Oft og tíðum þykir manni það undarlegt en almennt hefur því miður gilt sú regla að stjórnarliðar eru einfaldlega látnir greiða atkvæði gegn tillögum stjórnarandstöðu. Það skiptir sem sagt máli hvaðan tillögurnar koma. Þó leyfði ég mér að vona að í þessu tilviki yrði breyting þar á því að mikið hefur verið rætt um mikilvægi samstöðu. Stjórnarandstaðan hefur lýst vilja og sýnt hann líka til að vinna með meiri hlutanum að því að takast á við það ástand sem nú ríkir. Maður skyldi ætla að við þær aðstæður virkaði þetta í báðar áttir, að menn ynnu saman, en að sjá hér stjórnarmeirihlutann fella allar, að því er virðist, breytingartillögur minni hlutans, jafnvel tillögur sem miða eingöngu að því að framkvæma það sem ráðherrar hafa lofað, veldur mér verulegum vonbrigðum, herra forseti.